Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   fös 24. apríl 2020 18:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Spillingarmál á Spáni: Tveir fyrrum leikmenn Betis fá fangelsisdóm
Xavi Torres.
Xavi Torres.
Mynd: Getty Images
Antonio Amaya.
Antonio Amaya.
Mynd: Getty Images
Tveir fyrrum leikmenn Real Betis á Spáni og fimm fyrrum stjórnarmenn Osasuna hafa verið dæmdir í fangelsi fyrir spillingu.

Þeir fyrrum leikmenn Betis sem um ræðir eru Antonio Amaya (36) og Xavi Torres (33). Þeir voru báðir dæmdir í eins árs fangelsi fyrir spillingu er varðar íþróttir.

Amaya var síðast á mála hjá UCAM Murcia og er Torres leikmaður Al-Arabi í Kúveit.

Fimm fyrrum stjórnarmenn Osasuna fengu einnig fangelsisdóm, og var það fyrrum framkvæmdastjórinn Angel Vizcay sem fékk þyngsta dóminn. Hann var dæmur í átta ára og átta mánaða fangelsi. Þessir fimm fyrrum stjórnarmenn voru dæmir fyrir misnotkun á fjármunum, fölsun á reikningum og spillingu er varðar íþróttir.

Forseti Osasuna og spænska úrvalsdeildin hafa fagnað þessari niðurstöðu. Í yfirlýsingu frá La Liga sagði: „Þessi dómur styrkir baráttu La Liga gegn spillingu."

Í dómsúrskurði segir að sannað hafi verið að stjórnarmenn Osasuna hafi samþykkt að borga Amaya og Torres samtals 650 þúsund evrur til að hvetja þá til að hjálpa Betis að vinna Real Valladolid í næst síðasta leik í spænsku úrvalsdeildinni 2013/14 og tapa svo gegn Osasuna í lokaumferðinni.

Það fór þannig að Betis, sem var þegar fallið fyrir þessa leiki, vann Valladolid 4-3 og tapaði svo 2-1 fyrir Osasuna, sem féll þrátt fyrir það.

Tveir fasteignasalar voru einnig sakfelldir fyrir að falsa skjöl og hjálpa þannig Osasuna að halda jafnvægi á reikningum sínum tímabilin 2012/13 og 2013/14. Fasteignasalarnir fengu níu mánaða dóm.

Vizcay og hinir fyrrum stjórnarmennirnir eiga þá að greiða Osasuna rúmar 2,3 milljónir evra fyrir misnotkun á fjármunum félagsins.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner