fös 24. júlí 2020 12:49
Magnús Már Einarsson
Eggert hafnaði tilboðum erlendis fyrir FH - Vildi koma heim
Eggert Gunnþór Jónsson.
Eggert Gunnþór Jónsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Það er gott að koma heim loksins," sagði Eggert Gunnþór Jónsson í viðtali við Guðmund Hilmarsson á Facebook síðu FH-inga í dag. Eggert hefur gengið til liðs við FH og gert þriggja ára samning við félagið.

„Ég var búinn að finna fyrir því síðasta árið að það var löngun að koma heim. Ég held að það sé flottur tími að gera það núna. Það eru spennandi tímar framundan hjá klúbbnum og ég hlakka til að vera hluti af því."

Hinn 32 árs gamli Eggert varð á dögunum bikarmeistari í Danmörku með SönderjyskE. Hann hafði úr nokkrum tilboðum að velja erlendis en ákvað að koma heim í FH.

„Það voru nokkur tilboð. Ég gat verið áfram í SönderjyskE og annarsstaðar í Danmörku líka. Ég vildi koma heim og þegar þetta kom upp með FH var þetta spennandi tækifæri sem ég vildi vera hluti af."

„Það sýnir kannski hvað ég hef mikla trú á þjálfarateyminu og öllu sem er að gerast hérna að sé að velja þetta fram yfir allt sem var í boði úti. Þetta eru spennandi tímar."


Eggert hefur leikið í atvinnumennsku undanfarin fimmtán ár og hann mun nú í fyrsta skipti á ferlinum leika í efstu deild á Íslandi.„Ég er á besta aldri og er ekki að koma heim til að slaka á. Ég vil ef eitthvað er spýta meira í," sagði Eggert.

Eggert hefur á ferlinum bæði spilað sem miðjumaður og varnarmaður. Hvar mun hann spila hjá FH? „Á ferlinum hef ég spilað flesta leiki á miðjunni en ég hef líka spilað miðvörð og aðrar stöður. Þjálfarnir eru örugglega með þessar stöður í huga. Það skiptir engu máli. Maður vill hjálpa liðinu og standa sig vel," sagði Eggert.

Hér að neðan má sjá viðtalið við Eggert.


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner