fös 24. júlí 2020 07:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Leikur gegn Gróttu á mánudag - Hugsa ekki lengra en það"
Logi og Eiður Smári.
Logi og Eiður Smári.
Mynd: Fótbolti.net - Hulda Margrét
Eiður Smári Guðjohnsen, þjálfari FH, vildi lítið tjá sig um þær pælingar að hann myndi taka einn við þjálfun liðins að loknu tímabilinu.

Eiður, sem er einn besti fótboltamaður sem Ísland hefur átt, tók við þjálfun FH ásamt Loga Ólafssyni fyrr í þessum mánuði. Þeir hafa stýrt FH í tveimur leikjum og fengið fjögur stig.

Í útvarpsþættinum Fótbolta.net um síðustu helgi viðraði Baldvin Már Borgarsson, fréttaritari og aðstoðarþjálfari Ægis, þá hugmynd að Logi, sem er einn reynslumesti þjálfari landsins, myndi skóla Eið, sem er nýgræðingur í þjálfun, í þrjá mánuði og svo myndi Eiður taka einn við liðinu á næsta tímabili.

„Ég vona að þetta sé einhver hugsun hjá FH að fá Eið inn með einhverjum reynslubolta því hann hefur ekkert þjálfað. Hann hefur örugglega eitthvað fáránlegt æfingasafn frá því að hann var að spila fyrir Frank Rijkaard og Mourinho. Hann er örugglega með góðan gagnagrunn. Hann hefur þetta. Hann getur klárlega orðið frábær þjálfari, en hefur ekki reynsluna. Ég er að vona að það sé pælingin (að Eiður taki við FH alfarið eftir tímabilið). Þú gætir ekki tekið Eið inn núna, því hann hefur ekki reynsluna. Mér finnst þetta klókt að taka Loga með honum til að skóla hann í þrjá mánuði," sagði Baldvin.

Baldvin tók viðtal eftir jafntefli gegn KA á miðvikudag og spurði hann út í þetta. Þá sagði Eiður einfaldlega: „Það er leikur á móti Gróttu á mánudaginn og ég hugsa ekki lengra en það."

Viðtalið við Eið má sjá í heild sinni hér að neðan.
Eiður Smári: Margt sem þarf að vinna í
Athugasemdir
banner
banner
banner