Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   fös 24. ágúst 2018 08:36
Elvar Geir Magnússon
Alfreð ekki í fyrsta landsliðshóp Hamren vegna meiðsla
Icelandair
Alfreð verður ekki með gegn Sviss og Belgíu.
Alfreð verður ekki með gegn Sviss og Belgíu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Alfreð Finnbogason, helsti markaskorari íslenska landsliðsins, er á meiðslalistanum og verður ekki með í komandi leikjum gegn Sviss og Belgíu í Þjóðadeildinni. Leikirnir verða 8. og 11. september en Erik Hamren opinberar sinn fyrsta landsliðshóp 13:15 í dag.

Morgunblaðið greinir frá því í morgun að Alfreð hefur ekki náð sér fyllilega af meiðslum í kálfa sem héldu honum frá keppni um tíma á síðasta tímabili.

„Ég vonaðist til þess að það myndi jafna sig í sumarfríinu en þegar ég byrjaði að æfa hjá Augsburg eftir fríið var ég lítið skárri. Var því ákveðið að taka mig aðeins til hliðar og reyna að vinna í þessu. Ég vonast eftir því að ég geti byrjað að æfa á ný með liðinu um miðjan september eða seinni hluta september," sagði Alfreð við Morgunblaðið.

Hann missir af fyrstu leikjum Augsburg í þýsku deildinni en þar er hann algjör lykilmaður og miklar kröfur gerðar til hans.

„Sjálfur býst ég við miklu af mér en fyrst og fremst myndi ég vilja vera heill á þessu tímabili. Ég hef verið nokkuð óheppinn varðandi meiðsli síðustu tvö tímabilin. Mér gekk hrikalega vel fyrir jól í fyrra og þá leit þetta vel út. Eftir jól kom hrina meiðsla, sem var mjög leiðinlegt því allt stefndi í frábært tímabil. En þegar sóknarmaður skorar meira en 10 mörk í svo sterkri deild er það mjög jákvætt þótt ég geri mér grein fyrir því að þau hefðu orðið fleiri ef ég hefði náð að spila fleiri leiki."

Eins og áður sagði verður landsliðshópurinn opinberaður 13:15 í dag. Fastlega má gera ráð fyrir því að landsliðsfyirirliðinn Aron Einar Gunnarsson verði fjarri góðu gamni líkt og Alfreð. Aron hefur ekki getað spilað með Cardiff í upphafi tímabils og þá á hann von á sínu öðru barni á næstunni.
Athugasemdir
banner
banner