Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   fös 24. ágúst 2018 13:26
Magnús Már Einarsson
Landsliðshópurinn: Kolbeinn snýr aftur - Guðlaugur Victor valinn
Fimm breytingar frá HM - Albert í U21
Icelandair
Kolbeinn er í hópnum.
Kolbeinn er í hópnum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Guðlaugur Victor Pálsson er í hópnum.
Guðlaugur Victor Pálsson er í hópnum.
Mynd: Getty Images
Viðar kemur aftur í hópinn.
Viðar kemur aftur í hópinn.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Erik Hamren tilkynnti í dag sinn fyrsta landsliðshóp eftir að hann tók við íslenska landsliðinu. Um er að ræða hópinn fyrir komandi leiki gegn Sviss og Belgíu í Þjóðadeildinni í september.

Ísland heimsækir Sviss laugardaginn 8. september og þremur dögum síðar koma Belgar í heimsókn. Miðasala á leikinn gegn Belgíu hefst í hádeginu á þriðjudaginn.

Aron Einar Gunnarsson og Alfreð Finnbogason eru báðir fjarri góðu gamni vegna meiðsla og ekki í hópnum. Ragnar Sigurðsson er í hópnum en hann hafði gefið í skyn eftir HM að hann væri hættur með íslenska landsliðið.

Kolbeinn Sigþórsson er í hópnum og gæti mögulega spilað sinn fyrsta landsleik síðan árið 2016.

„Kolbeinn er ekki tilbúinn að byrja leik því hann hefur ekki spilað lengi. Ég ræddi við hann. Hann er heill heilsu og ég vil að hann komi. Ef hann getur haldist heill og byrjað að spila þá er það mjög áhugavert fyrir okkur. Hann getur spilað 15-20 mínútur og komið inn á í þessum leikjum," sagði Hamren á fréttamannafundi í dag.

Síðan í 23-manna hópnum á HM detta Ólafur Ingi Skúlason, Samúel Kári Friðjónsson og Albert Guðmundsson út auk Arons og Alfreðs. Albert hefði verið í hópnum ef ekki væri fyrir leiki hjá U21 árs landsliðinu.

„Ég ræddi við Albert Guðmundsson. Hann er ekki að fara að verða í byrjunarliðinu í þessum leikjum og þá er betra að hann spili með U21 árs landsiðinu. Ungir leikmenn þurfa að spila mikið. Ég held að hann geti orðið mjög góður en í þetta skiptið er hann með U21 árs landsliðinu." sagði Hamren.

Guðlaugur Victor Pálsson, fyrirliði Zurich í Sviss, er í hópnum í fyrsta skipti í langan tíma auk þess sem Jón Guðni Fjóluson, Rúnar Már Sigurjónsson og Viðar Örn Kjartansson koma aftur inn en þeir hafa verið viðloðandi landsliðshópinn undanfarin ár.

Hannes Þór Halldórsson var ekki með Qarabag í Evrópudeildinni í gær vegna smávægilegra meiðsla á nára. Vonir standa til að hann nái leiknum gegn Sviss eftir tvær vikur.

„Þetta er nýkomið upp með nárann á honum. Við erum að bíða eftir að fá upplýsingar úr myndatöku. Það ætti að koma í dag. Fyrstu viðbrögð frá honum og sjúkrateyminu voru þau að þetta væri ekki alvarlegt. Þess vegna var hann í hópnum. Við vonum að þetta sé ekki alvarlegt," sagði Freyr Alexandersson aðstoðarþjálfari á fréttamannafundi í dag.

Smelltu hér til að sjá fleiri tíðindi af fréttamannafundinum

Markmenn
Hannes Þór Halldórsson (Qarabag)
Rúnar Alex Rúnarsson (Dijon)
Frederik Schram (Roskilde)

Varnarmenn
Birkir Már Sævarsson (Valur)
Ragnar Sigurðsson (Rostov)
Kári Árnason (Gençlerbirliği)
Ari Freyr Skúlason (Lokeren)
Sverrir Ingi Ingason (Rostov)
Hörður Björgvin Magnússon (CSKA Moskva)
Jón Guðni Fjóluson (Krasnodar)
Hólmar Örn Eyjólfsson (Levski Sofia)

Miðjumenn
Gyfi Þór Sigurðsson (Everton)
Emil Hallfreðsson (Frosinone)
Birkir Bjarnason (Aston Villa)
Jóhann Berg Guðmundsson (Burnley)
Arnór Ingvi Traustason (Malmö)
Rúrik Gíslason (Sandhausen)
Rúnar Már Sigurjónsson (Grasshopper)
Guðlaugur Victor Pálsson (FC Zurich)

Sóknarmenn
Jón Daði Böðvarsson (Reading)
Kolbeinn Sigþórsson (Nantes)
Björn Bergmann Sigurðarson (Rostov)
Viðar Örn Kjartansson (Maccabi Tel Aviv)

Leikir Íslands Þjóðadeildinni
8. september Sviss-Ísland (St. Gallen)
11. september Ísland-Belgía (Laugardalsvöllur)
15. október Ísland-Sviss (Laugardalsvöllur)
15. nóvember Belgía-Ísland (Brussel)

„Það verður erfitt fyrir okkur að mæta liðunum sem eru númer þrjú og átta á heimslistanum. Þetta er áhugavert og spennandi áskorun," sagði Hamren á fréttamannafundi í dag.
Athugasemdir
banner
banner
banner