mán 25. janúar 2021 22:20
Brynjar Ingi Erluson
Winks: Alltof kalt til að fara í framlengingu
Harry Winks og Pierre-Emile Hojbjerg voru hressir í leiknum
Harry Winks og Pierre-Emile Hojbjerg voru hressir í leiknum
Mynd: Getty Images
Harry Winks, miðjumaður Tottenham Hotspur, var ánægður með 4-1 sigurinn á Wycombe Wanderers í enska bikarnum í kvöld en liðið er komið áfram í fimmtu umferðina.

Þetta var erfið fæðing hjá Tottenham. Liðið lenti óvænt undir á 25. mínútu en Gareth Bale tókst að jafna leikinn undir lok fyrri hálfleiks.

Það voru nokkrar mínútur eftir af leiknum er Winks skoraði annað mark Tottenham og svo bætti Tanguy Ndombele við tveimur til viðbótar til að gulltryggja sigurinn en leikmenn liðsins voru ákveðnir að fara ekki í framlengingu.

„Þetta er kalt kvöld þannig við vildum ekki fara með leikinn í framlengingu. Þetta var erfiður leikur og Wycombe er með gott lið og þeir gerðu okkur erfitt fyrir frá fyrstu mínútu," sagði Winks.

„Við bjuggumst við baradaga og við þurftum að berjast fram að síðustu mínútu og sem betur fer fór þetta ekki í framlengingu."

„Þetta er enski bikarinn og maður veit aldrei hvað gerist í þessari keppni. Við áttum mörg færi í leiknum en náðum ekki að nýta þau en það er mikil trú í liðinu og við héldum áfram fram að leikslokum og það dugði í dag."


Winks er ekki fastur byrjunarliðsmaður hjá Tottenham en hann er þó ánægður þegar hann fær tækifæri í liðinu. Hann nýtti það í kvöld og náði inn marki.

„Ég hef verið að vinna mikið í þessu á æfingum og þegar boltinn kom til mín þá reyndi ég að halda ró minni. Ég er ánægður með að skora þegar ég fæ tækifærið til þess. Það er erfitt að fá ekki að spila reglulega og finna taktinn þannig en ég tek öllum þeim tækifærum sem ég fæ og það er undir mér komið að standa mig," sagði hann í lokin.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner