lau 25. apríl 2020 14:07
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Ekki hægt að setja Sancho í hóp með stjörnum fótboltans
Jadon Sancho.
Jadon Sancho.
Mynd: Getty Images
Gary Neville.
Gary Neville.
Mynd: Getty Images
Gary Neville, fyrrum leikmaður Manchester United, eigandi Salford, hóteleigandi og sérfræðingur á Sky Sports segir að menn séu kannski aðeins að fara fram úr sér með Jadon Sancho.

Neville segir að of snemmt sé að líta á Sancho sem einn besta leikmann í heimi.

Sancho, sem er tvítugur, hefur verið frábær fyrir Borussia Dortmund en hann er með 15 mörk og 16 stoðsendingar á þessu tímabili. Sancho var hjá Manchester City en yfirgaf félagið 17 ára í leit að meiri spiltíma.

Talið er að Sancho yfirgefi Dortmund aftur í næsta félagaskiptaglugga og fari til Englands á um 100 milljónir punda. Hann hefur hvað mest verið orðaður við Chelsea og Manchester United.

Neville segir að þó Sancho sé mjög hæfileikaríkur þá sé ekki hægt að líkja honum við bestu leikmenn í heimi - ennþá.

„Það er frábær ungur hópur að koma upp hjá Englandi, en við verðum líka að taka það til umhugsunar að aðrir leikmenn eru til. Brasilískir leikmenn, argentískir leikmenn, þýskir leikmenn, belgískir leikmenn. Við erum ekki eina landið í heiminum," sagði Neville á Sky Sports.

„Það er sagt að við séum með gullkynslóð, en það gleymist að aðrar þjóðir eru með stjörnur. Argentína er með Messi, Aguero, Higuain, Di Maria. Hversu góðir eru þeir samanborið við Jadon Sancho? Sancho kemst ekki fótana þar sem þessir leikmenn eru með hælana."

„Sancho er hæfileikaríkur, en við getum ekki sett hann í sama flokk og þessar stjörnur sem eru að vinna Evrópubikara og Heimsmeistaratitla."

Sancho á bjarta framtíð fyrir höndum, en Neville finnst það of snemmt að setja hann í hóp með bestu leikmönnum heimsins.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner