Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   mán 25. maí 2020 09:30
Ívan Guðjón Baldursson
Al Bangura flúði sértrúarsöfnuð og mansalshring
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Alhassan Bangura, betur þekktur sem Al Bangura, gaf ítarlegt viðtal við The Athletic þar sem hann ræddi félagaskipti sín til Watford fyrir fimmtán árum og hvernig enska félagið bjargaði lífi hans.

Bangura fæddist inn í sértrúarsöfnuð í Síerra Leóne þar sem faðir hans var æðsti maður. Faðir hans lést ungur og átti Bangura að taka við stöðu í söfnuðinum á 15 ára afmælisdaginn sinn. Það vildi móðir hans ekki svo hún hjálpaði honum að flýja til Gíneu.

„Ég var 13 ára þegar fólk byrjaði að koma og segja okkur að ég yrði að ganga í söfnuðinn á fimmtánda afmælisdaginn til að taka við sem leiðtogi. Þetta er hópur af fólki sem stundar svartagaldur. Þeir hefðu skorið húðina mína og hellt alskyns vökvum í sárin og ég hefði ekki mátt sýna neinn sársauka. Þetta er eins og að pynta sjálfan sig," sagði Bangura.

„Ég var bara ungur strákur sem vildi spila fótbolta en mér var ætlað hlutverk í söfnuðinum, rétt eins og föður mínum. Þess vegna þurfti ég að flýja til Gíneu."

Bangura spilaði fótbolta í Gíneu og kom maður, sem sagðist vera njósnari frá Frakklandi, auga á hann. Þessi maður fór með Bangura til Frakklands og svo til Englands en reyndist partur af mansalshring.

„Við fórum til Frakklands en ég hafði ekki samskipti við neinn. Svo fórum við með lest til Englands og ég man hvað ég var spenntur að vakna næsta dag og fara í prufu hjá fótboltaliði. Ég vissi að ég gæti sett mig í samskipti við móður mína og fjölskyldu um leið og ég væri búinn að koma mér fyrir.

„Við fórum á hótel og hann sagði mér að bíða í herberginu. Eftir nokkrar mínútur komu tveir menn inn um hurðina og byrjuðu að snerta mig. Ég skildi ekki ensku og leið mjög óþægilega. Þeir hafa haldið að ég vissi hvað væri að fara að gerast, en ég gerði það ekki og byrjaði að öskra. Ég æpti og hrópaði og þeir fóru úr herberginu. Þá flúði ég frá hótelinu og var úti í fimm eða sex klukkutíma án þess að vera með yfirhöfn.

„Ég vissi ekki hvar ég var eða hvað ég ætti að gera, ég fann mann frá Nígeríu og grátbað hann um að hjálpa mér. Ég útskýrði fyrir honum ástandið og hann sagði mér að leita til útlendingastofnunar. Hann fann strætó fyrir mig og borgaði miðann."


Bangura var aðeins sextán ára gamall og fékk því landvistarleyfi á Englandi til 18 ára aldurs og byrjaði að spila fótbolta fyrir Chertsey Town. Watford komst fljótlega á snoðir um hæfileika hans og spilaði Bangura sinn fyrsta keppnisleik fyrir félagið aðeins sautján ára gamall.

Þegar Bangura varð átján ára fékk hann ekki áframhaldandi landvistarleyfi á Englandi og átti að senda hann úr landi. Heim til Síerra Leóne þar sem hann hefði verið í bráðri lífshættu vegna sértrúarsafnaðarins sem hann flúði nokkrum árum fyrr.

Hann fékk gífurlega mikinn stuðning frá Watford, bæði starfsmönnum og stuðningsmönnum, sem fóru fyrir því að Bangura yrði ekki sendur heim. Það hafðist að lokum og er Bangura enskur ríkisborgari í dag.

Hann er 32 ára gamall og vinnur á heimili fyrir aldraða á meðan hann nýtur þess að spila fótbolta í utandeildinni.

Sjá einnig:
Bangura fær að vera áfram á Englandi
Stuðningsmenn Watford sýndu Bangura stuðning
Athugasemdir
banner
banner