mið 25. maí 2022 17:20
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
„Sterkast í þessu að þjálfari FCK þorði að setja þá í liðið í lokaleikjunum"
Vill að Kristian og Andri Fannar fái mínútur
Hákon og Ísak, samherjar hjá FCK og í A-landsliðinu.
Hákon og Ísak, samherjar hjá FCK og í A-landsliðinu.
Mynd: Getty Images
Andri Fannar er í U21 árs landsliðinu.
Andri Fannar er í U21 árs landsliðinu.
Mynd: KSÍ
Sem og Kristian Nökkvi
Sem og Kristian Nökkvi
Mynd: Fótbolti.net - Hulda Margrét
Fjórir Íslendingar urðu danskir meistarar með FC Kaupmannahöfn á sunnudag. Það voru þeir Andri Fannar Baldursson, Hákon Arnar Haraldsson, Ísak Bergmann Jóhannesson og Orri Steinn Óskarsson.

Tveir þeirra, þeir Hákon og Ísak, eru í A-landsliðshópnum fyrir komandi leiki í júní og þeir Andri og Orri eru í U21 árs landsliðinu.

Landsliðsþjálfarinn Arnar Þór Viðarsson var á fréttamannafundi í dag spurður út í afrek þeirra Hákons og Ísaks.

„Þetta er auðvitað bara frábært. Það sem mér hefur fundist vera sterkast í þessu er að í lokaleikjunum í þessu umspili í Danmörku þá þorði þjálfari FCK að setja þá í liðið. Ég veit ekki hvort það voru meiðsli eða leikbönn eða hvað það var. En þegar FCK virkilega þurfti að ná í úrslit þá voru okkar menn í byrjunarliðinu, spiluðu þessa síðustu leiki og sigldu þessu í rauninni heim."

„Það var ekki þannig að þeir urðu meistararnir eftir að hafa komið inná síðustu tuttugu mínúturnar í síðasta leiknum. Þeir voru virkilega hluti af þessu afreki og það eru akkúrat þessir hlutir sem verða til þess að leikmenn taka þessi skref sem við erum búnir að vera tala um í heilt ár."

„Ef við horfum til baka í leikina í mars þá sáum við mikinn mun á hlaupatölum í leik 1 og 2. Einfaldlega vegna þess að við vorum með of marga leikmenn sem voru ekki í nógu góðu leikformi. Nú er sú staða aðeins betri."

„Ef við horfum til baka til t.d. október, með þessa tvo stráka, þá eru þeir búnir að taka ákveðin skref. Þá vonar maður sem þjálfari, af því þetta snýst um íslenska landsliðið, að þeir verði komnir ennþá lengra þegar horft er í júní á næsta ári."


Arnar nefndi að það væru ekki bara þessir tveir leikmenn sem væru að gera flotta hluti. Hann nefndi að Þórir Jóhann Helgason hefði unnið ítölsku B-deildina með Lecce og að hægt væri að telja upp fleiri leikmenn sem væru að taka góð skref.

Vill að Kristian fái mínútur
Næst var Arnar spurður út í Kristian Nökkva Hlynsson sem lék sína fyrstu leiki með aðalliði Ajax í vetur. Var hann nálægt hópnum að þessu sinni?

„Kristian er að sjálfsögðu einn af þeim leikmönnum sem vitum að á að geta orðið framtíðarleikmaður í íslenska A-landsliðinu. Við erum í samstarfi við U21 og U19 að menn fái leiki. Eins og t.d. er Andri Fannar í U21 því við viljum að hann fái mínútur og sama með Kristian."

„Ég þekki aðeins þjálfarann [Alfred Schreuder] sem er að koma til Ajax núna og vona að hann muni gefa Kristian aðeins fleiri leiki á næsta ári svo hann taki þessi skref,"
sagði Arnar.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner