fim 25. júní 2020 09:00
Magnús Már Einarsson
Gunnar Þór: Auðveldara að festast á svona þurru gervigrasi
Gunnar Þór Gunnarsson.
Gunnar Þór Gunnarsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Gunnar Þór Gunnarsson, varnarmaður KR, sleit líklega krossband í hné í 8-1 sigri liðsins á Vængjum Júpíters í Mjólkurbikarnum í fyrrakvöld.

„Það hefur eitthvað farið, hvort það sé um krossband að ræða er ekki alveg víst. Það eru aðrir hlutir þarna, liðband en flest bendir til þess að það sé krossband líka,“ sagði Gunnar í viðtali í kvöldfréttum Stöð 2 Sport í gær.

KR-ingar og Vængir Júpíters höfðu óskað eftir að færa leikinn í Vesturbæ en ekki fékkst leyfi fyrir því. Emil Ásmundsson, leikmaður KR, sleit krossband í Egilshöll í vetur og Vesturbæingar eru ósáttir með gervigrasið þar.

„Grasið í Egilshöll er ekki gott. Við erum ekki með beinan samanburð hvernig þetta hefði farið á náttúrulegu grasi eða blautu gervigrasi en mín persónulega tilfinning er að það hafi haft eitthvað með þetta að gera. Samkvæmt þeim sem ég hef talað við er auðveldara að festast á svona þurru gervigrasi þar sem er ekki viðhald til staðar – eftir því sem ég best veit,“ sagði Gunnar við Stöð 2.

Hinn 34 ára gamli Gunnar er nú mögulega búinn að spila sinn síðasta leik á ferlinum en þetta er í annað skipti sem hann slítur krossband.

„Þetta rosalega svekkjandi og leiðinlegt ef þetta endar svona. Að sama skapi er – ef þetta átti að gerast aftur - fínt að ég fékk nokkur ár á milli. Verandi orðinn þetta gamall og geta litið til baka og séð að maður hefur gert eitthvað á ferlinum. Ef það var einhver sem átti að lenda í þessu er fínt að það var einhver af gömlu jálkunum svo það sé ekki að skemma einhverja fótbolta framtíð,“ sagði Gunnar við Stöð 2.

Sjá einnig:
KR-ingar skoða hvort grundvöllur sé fyrir bótarétti
Rúnar Kristins búinn að fá nóg: Annar leikmaður sem eyðileggur á sér hnéð

Athugasemdir
banner
banner
banner