Man City ræðir um möguleg kaup á Ait-Nouri - Adarabioyo eftirsóttur - Newcastle vill Sesko
   fim 25. júní 2020 19:20
Ívan Guðjón Baldursson
Sneijder: Vodkaflaskan var minn besti vinur
Sneijder er goðsögn í Hollandi. Hann lék lykilhlutverk er landsliðið vann til silfurverðlauna á HM 2010 og brons 2014.
Sneijder er goðsögn í Hollandi. Hann lék lykilhlutverk er landsliðið vann til silfurverðlauna á HM 2010 og brons 2014.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sjálfsævisaga Wesley Sneijder verður gefin út á morgun, föstudag, og hafa partar úr henni verið birtir á ýmsum miðlum.

Miðjumaðurinn fyrrverandi lék fyrir Real Madrid frá 2007 til 2009 en átti erfitt uppdráttar og var seldur til Inter á útsöluverði. Hann skein með Inter og stimplaði sig inn sem einn af bestu miðjumönnum heims þegar félagið vann sögulega þrennu undir stjórn Jose Mourinho 2010.

Í sjálfsævisögunni opnar Sneijder sig um erfiðleikana sem hrjáðu hann í Madríd.

„Ég var ungur og elskaði athyglina sem ég fékk - þar gerði ég mistök. Það voru engin eiturlyf en mikið af áfengi. Ég vandist stjörnulífinu þar sem ég var dáður fyrir að vera leikmaður Real Madrid," segir Sneijder í bók sinni.

„Ég elskaði athyglina, ég elskaði að eyða og gefa pening. Ég spilaði ekki illa hjá Real en ég hefði getað spilað mun betur. Erfiðasti tíminn var skilnaðurinn. Ég áttaði mig ekki á því að vodkaflaskan var orðin minn besti vinur.

„Í upphafi tók ég ekki eftir neinum líkamlegum áhrifum en þegar tók að líða á tímabilið byrjaði ég að missa einbeitinguna og spila verr. Ég laug að sjálfum mér og nýtti fótboltaheilann á vellinum. Líkamsgetan mín hrundi að lokum, ég gat ekki hlaupið en náði að fela það með að staðsetja mig rétt."


Sneijder skoraði ellefu mörk í 66 leikjum hjá Real Madrid.
Athugasemdir
banner
banner