Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   sun 25. júlí 2021 10:48
Brynjar Ingi Erluson
Ólympíuleikarnir: Gignac með flugeldasýningu í sigri á Suður-Afríku
Andre Pierre-Gignac var magnaður í sigri Frakklands
Andre Pierre-Gignac var magnaður í sigri Frakklands
Mynd: EPA
Hinn 35 ára gamli Andre-Pierre Gignac skoraði þrennu og lagði upp eitt er Frakkland bar sigur úr býtum gegn Suður-Afríku, 4-3, á Ólympíuleikunum í Japan í dag.

Leikurinn var afar opinn og fengu bæði lið fjölmörg færi til að moða úr. Suður-Afríka fékk vítaspyrnu undir lok fyrri hálfleiks. Lucas Tousart gerðist brotlegur innan teigs og fór Luther Singh á punktinn en skot hans fór í þverslá og yfir.

Það dró til tíðinda á 53. mínútu í síðari hálfleik er Kobamelo Kodisang skoraði fyrir Suður-Afríku. Fjórum mínútum síðar jafnaði Gignac fyrir Frakka.

Síðustu tuttugu mínúturnar voru líflegar. Evidence Makgopa kom Suður-Afríku aftur fyrir á 72. mínútu en aftur jafnaði Gignac. Þegar níu mínútur voru eftir tók Suður-Afríku aftur forystuna og að þessu sinni var það Teboho Mokoena með markið.

Gignac tók þá málin í eigin hendur og skoraði úr víti á 86. mínútu og fullkomnaði þrennuna. Fjórða mark hans á mótinu. Hann lagði síðan upp sigurmark Teji Savanier í uppbótartímanum. Suður-Afríka fékk dauðafæri undir lokin en Luke Fleurs klúðraði fyrir opnu marki.

Góður sigur Frakka og liðið enn í möguleika á að komast upp úr A-riðli en liðið er með 3 stig.

Í B-riðlinum náði Hondúras í góðan 3-2 sigur gegn Nýja-Sjálandi á meðan Argentína lagði Egyptaland, 1-0, í C-riðli. Facundo Medina gerði sigurmark Argentínu. Þetta var fyrsti sigur Argentínu á Ólympíuleikunum í sumar.

Brasilía og Fílabeinsströndin gerðu þá markalaust jafntefli í D-riðlinum. Douglas Luiz var rekinn af velli í liði Brasilíu eftir aðeins þrettán mínútur en það var ekki jafnt í liðum fyrr en á 79. mínútu er Eboue Kouassi fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt.

Bæði lið eru með 4 stig og í góðum möguleika á að fara upp úr riðlinum.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner