banner
   sun 25. ágúst 2019 21:08
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Pepsi Max-deildin: Víkingar skilja Grindavík eftir í fallsæti
Ágúst Eðvald skoraði sigurmarkið.
Ágúst Eðvald skoraði sigurmarkið.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Grindavík er í fallsæti með 18 stig.
Grindavík er í fallsæti með 18 stig.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Víkingur R. 1 - 0 Grindavík
1-0 Ágúst Eðvald Hlynsson ('80 )
Lestu nánar um leikinn

Víkingur og Grindavík áttust við í miklum rigningaleik á gervigrasinu í Víkinni í kvöld. Leikurinn var að klárast, en það var mikið undir í fallbaráttunni.

Það voru virkilega erfiðar aðstæður á vellinum. Víkingar vildu fá að fresta leiknum en Grindvíkingar neituðu því.

Víkingar voru heilt yfir sterkari í fyrri hálfleiknum en fátt var um færi. Í byrjun seinni hálfleiks fékk Stefan Alexander Ljubicic mjög gott færi, en skot hans fór rétt fram hjá markinu. Þar skall hurð nærri hælum hjá Víkingum sem voru með yfirhöndina í kvöld.

Í seinni hálfleiknum voru Víkingar mikið að vinna með það að koma boltanum inn í teiginn eftir fyrirgjafir. Á 80. mínútu leiksins kom fyrsta og eina mark leiksins. Það gerði Ágúst Eðvald Hlynsson, sem hafði átt nokkrar hættulegar sendingar inn í teiginn í leiknum.

„Davíð upp að endamörkum með fyrirgjöf sem gestirnir ná ekki að hreinsa. Boltinn dettur fyrir Ágúst sem hamrar hann í netið af vítapunkti," skrifaði Sverrir Örn Einarsson í beinni textalýsingu.

Grindvíkingar náðu ekki að ógna mikið síðustu mínúturnar og landaði Víkingur sigrinum. Mikilvægur sigur, svo sannarlega.

Víkingur er í áttunda sæti með 22 stig. Staða Grindvíkinga er ekki frábær, þeir eru með 18 stig í fallsæti.

Næsti leikur Grindavíkur verður rosalega mikilvægur. Grindavík, í 11. sæti, mætir KA, í 10. sæti. Það munar þremur stigum á liðunum. Túfa, þjálfari Grindavík, er að mæta sínum gömlu lærisveinum og Óli Stefán, þjálfari KA, er að mæta sínum gömlu lærisveinum. Leikurinn er í Grindavík næsta laugardag.

Sjá einnig:
Bragðdauft hjá KA og KR


Athugasemdir
banner
banner
banner