banner
   þri 25. september 2018 11:39
Magnús Már Einarsson
Grindvíkingar að hefja viðræður við þjálfara
Óvíst hvað Milan Stefan Jankovic gerir
Milan Stefán Jankovic og Óli Stefán Flóventsson.
Milan Stefán Jankovic og Óli Stefán Flóventsson.
Mynd: Raggi Óla
„Við erum rétt byrjaðir að þreifa fyrir okkur," sagði Gunnar Már Gunnarsson formaður knattspyrnudeildar Grindavíkur við Fótbolta.net í dag aðspurður út í þjálfaramál liðsins.

Óli Stefán Flóventsson, þjálfari Grindvíkinga undanfarin þrjú ár, tilkynnti í byrjun mánaðarins að hann ætli að hætta sem þjálfari eftir tímabilið.

Í íslenska slúðurpakkanum á Fótbolta.net í gær voru Mathias Jack, Magni Fannberg og Óskar Hrafn Þorvaldsson orðaðir við stöðuna. Srdjan Tufegdzic, þjálfari KA, hefur einnig verið nefndur til sögunnar.

„Við erum búnir að setja okkur í samband við þjálfara sem við erum að hefja viðræður við. Við getum ekki gefið upp nafn eða nöfn strax. Við erum með ákveðna goggunarröð," sagði Gunnar sem vonast til að Grindavík geti gengið frá þjálfaramálum fljótlega.

„Það kemur vonandi niðurstaða í byrjun næstu viku en það gerist ekki nema báðir aðilar verði sáttir um hvað við erum að fara að gera."

Milan Stefán Jankovic, aðstoðarþjálfari Grindvíkinga, þykir líklegur til að fylgja Óla Stefáni í nýtt starf en þeir félagar hafa verið sterklega orðaðir við KA.

„Ég var með hann í kaffi áðan og hann gaf ekkert út um það. Hann er með uppsagnarákvæði í samningi sínum sem hann gæti nýtt sér. Við sjáum til hvað hann ákveður að gera."

Þónokkuð margir leikmenn Grindvíkinga eru samningslausir en þeirra mál skýrast í haust. „Ég hugsa að flestir leikmenn vilji sjá hvaða þjálfari kemur áður en þeir gera samning við okkur. Það er eðlilegt. Við erum byrjaðir á samtölum en við vonumst til að ganga frá þjálfaramálum og fara í hinn pakkann eftir það," sagði Gunnar.
Athugasemdir
banner
banner
banner