banner
   fim 26. janúar 2023 12:30
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Orri Gunnars leggur skóna á hilluna
Í leik árið 2017.
Í leik árið 2017.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Úr leik síðasta sumar.
Úr leik síðasta sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Orri Gunnarsson hefur lagt skóna á hilluna, frá þessu greinir Fram með færslu á samfélagsmiðlum. Orri er þrítugur bakvörður sem hefur allan sinn feril leikið með Fram.

„Orri lék sinn fyrsta keppnisleik með meistaraflokki Fram árið 2011, þá 18 ára gamall. Fyrsta sumarið lék hann 8 leiki í deild og bikar og skoraði þar 2 mörk. Allt frá því sumri hefur Orri leikið með Fram og er einn af fáum sem geta státað sig af því að vera "one club legend" eins og sagt er," segir í færslu Fram.

Orri lék 217 sinnum fyrir meistaraflokk Fram og skoraði í þeim leikjum 20 mörk. Það gerir Orra að 17. leikjahæsta leikmanni í sögu Fram. Hann lék fimm tímabil í efstu deild og sex í næstefstu.

Á síðasta tímabili kom hann við sögu í fimmtán deildarleikjum en byrjaði einungis tvo þeirra. Hann varð bikarmeistari með liðinu árið 2013.

„Eftirminnilega lék Orri allar 120 mínúturnar í bikarúrslitaleik Fram gegn Stjörnunni árið 2013 þegar Fram bar sigur úr býtum eftir vítaspyrnukeppni, einnig var Orri í liðinu þegar Fram varð Reykjavíkurmeistari árið 2012 og 2014."

„Við reiknum þó ekki með að Orri sé farinn mikið lengra en upp í stúku, enda blátt blóð í æðum leikmannsins og afkomandi mikillar Fram fjölskyldu."

„Tíminn er kominn og okkar maður ákvað að leggja skóna á hilluna eftir síðasta tímabil og einbeita sér að öðrum verkefnum lífsins. Nýr Framari er væntanlegur á næstu vikum og verður í nógu að snúast. Við óskum Orra og fjölskyldu innilega til hamingju."

„Stjórn, þjálfarar, starfsmenn og allir Framarar, óska Orra innilega til hamingju með ferilinn og við óskum honum góðs gengis í næstu verkefnum!"



Athugasemdir
banner
banner