Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   þri 26. mars 2019 10:30
Ívan Guðjón Baldursson
Rabiot fær ekki landsliðssæti vegna afskiptasemi móður sinnar
Mynd: Getty Images
Adrien Rabiot hefur ekki komið við sögu með franska landsliðinu síðan hann neitaði að vera á varamannalista fyrir HM 2018. Didier Deschamps landsliðsþjálfari Frakka gagnrýndi þá ákvörðun harðlega og talaði um hana sem risastór mistök.

Því voru uppi vangaveltur um hvort Rabiot væri í banni frá landsliðinu en Noel Le Graet, forseti franska knattspyrnusambandsins, segir svo ekki vera. Hann segir að hegðun móður hans, sem er einnig umboðsmaðurinn hans, sé að halda honum frá landsliðssæti.

„Hann er alls ekki í banni frá landsliðinu. Ef þjálfarinn vill velja hann þá má hann það, en sá dagur mun ekki renna upp í bráð," sagði Le Graet við L'Equipe.

„Ég bauð Adrien að koma til mín og útskýra mál sitt en hann svaraði mér ekki, heldur svaraði móðir hans. Hún sagðist vilja mæta fyrst ein á fundinn en ég tók það ekki í mál og sagði henni að það myndi ekki einu sinni gerast í draumi. Svo spjölluðum við aftur og þá vildi hún fá að vera viðstödd fundinn ásamt syni sínum en ég sagði að það væri ekki hægt. Á endanum varð ekkert úr fundinum.

„Ég vildi nýta fundinn til að segja Adrien að hann sé of ungur til að vera að lenda í rifrildi við franska landsliðið."


Rabiot er 23 ára miðjumaður og hefur ekki fengið að spila fyrir félagslið sitt, PSG, síðan fyrir áramót vegna samningsdeilna. Rabiot, sem á 6 A-landsleiki að baki, mun yfirgefa PSG á frjálsri sölu í sumar. Móðir hans, Veronique Rabiot, er ekki vel séð hjá PSG og ekki Toulouse heldur, þar sem Rabiot var á láni fyrir sex árum.
Athugasemdir
banner