þri 26. mars 2019 09:30
Ívan Guðjón Baldursson
Tottenham með flesta menn í landsliðsverkefnum
Ekkert pláss fyrir þennan hjá franska landsliðinu.
Ekkert pláss fyrir þennan hjá franska landsliðinu.
Mynd: Getty Images
Lukaku ætti að vera klár strax eftir landsleikjahléð.
Lukaku ætti að vera klár strax eftir landsleikjahléð.
Mynd: Getty Images
Son fær aldrei frið.
Son fær aldrei frið.
Mynd: Getty Images
Nú fer fyrsta opinbera landsleikjahléi ársins að ljúka og biðja knattspyrnustjórar félagsliða um allan heim til æðri mátta þegar kemur að heilsu leikmanna. Evening Standard útbjó lista til að athuga hvaða félagslið í Meistaradeildarbaráttu á Englandi myndu finna mest fyrir hlénu.

Mikilvægustu vikur tímabilsins eru framundan þar sem aðeins átta umferðir eru eftir af úrvalsdeildartímabilinu og ekki nema fjögur stig sem skilja þriðja og sjötta sæti að. Þeir leikmenn sem fá hvíld í landsleikjahlénu gætu því verið með talsvert meira eldsneyti í tankinum heldur en aðrir sem hafa verið á fullu með landsliðum sínum.

Arsenal er þokkalega vel statt og eru leikmenn liðsins í æfingaferð í Dúbaí um þessar mundir. Laurent Koscielny, Petr Cech og Mesut Özil eru búnir að leggja landsliðsskóna á hilluna og fóru því með til Dúbaí. Þá voru Shkodran Mustafi og Bernd Leno ekki kallaðir upp í þýska landsliðið á meðan Nacho Monreal og Alexandre Lacazette komust ekki í hóp hjá Spáni og Frakklandi og Ainsley Maitland-Niles var ekki kallaður upp í U21 landslið Englands. Lucas Torreira er að keppa með Úrúgvæ um helgina en fær þó hvíld við heimkomuna því hann er í leikbanni í næsta leik Arsenal, gegn Newcastle næsta mánudag.

Chelsea kemur þó betur úr hlénu þar sem margar af helstu stjörnum liðsins verða eftir í London, þó orðrómurinn um yfirvofandi brottrekstur Maurizio Sarri hjálpi vafalaust ekki. Willian, Gonzalo Higuain og David Luiz eru enn hjá félaginu rétt eins og spænsku leikmennirnir Cesar Azpilicueta, Marcos Alonso og Pedro. Sarri er þó búinn að missa Ruben Loftus-Cheek í meiðsli en hann þurfti að draga sig úr landsliðshóp Englendinga.

Manchester United er líklega það félag sem kemur best úr hlénu en aðeins 8 leikmenn liðsins eru í landsliðsverkefnum eftir að Luke Shaw og Anthony Martial voru sendir meiddir heim. Jesse Lingard fær hvíld frá Englandi og Romelu Lukaku kom ekki við sögu með belgíska landsliðinu vegna meiðsla.

Tottenham kemur út verst með 17 leikmenn í landsliðsverkefnum. Heung-min Son þarf að ferðast alla leið til Suður-Kóreu til að spila æfingaleiki og þar mun hann mæta liðsfélaga sínum Davinson Sanchez, sem leikur fyrir Kólumbíu. Tottenham á erfiðan leik framundan í úrvalsdeildinni, gegn Liverpool á Anfield næsta sunnudag. Það gefur Mauricio Pochettino auka dag til að endurskipuleggja liðið sitt eftir hléð.
Athugasemdir
banner