Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
   fös 26. apríl 2019 12:15
Arnar Daði Arnarsson
Þórhallur: Yrði furðulegt í dag að tala um toppbaráttu
Þórhallur Siggeirsson.
Þórhallur Siggeirsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þróttur R. er spáð 5. sæti í spá þjálfara og fyrirliða í Inkasso-deild karla í sumar.

Þórhallur Siggeirsson tók við liði Þróttar á þessu ári eftir að Gunnlaugur Jónsson sagði skilið við Þrótt eftir tæplega eitt ár í starfi. Þórhallur var áður aðstoðarþjálfari liðsins.

„Fyrstu mánuðirnir hafa verið skemmtilegir og krefjandi. Ýmsar hindranir og bananahýði til að stíga á og ljóst að ég þarf að læra og þroskast hratt í starfinu. Það er púsl að koma saman liði á skömmum tíma en tilhlökkunin fyrir sumrinu er í gríðarleg. Andinn er góður og vonandi munum við styrkjast og eflast sem hópur með sumrinu," sagði Þórhallur sem er ekkert gapandi hissa yfir því að vera spáð 5. sæti.

„Mig grunaði að okkur yrði spáð þessum miðjusætum fimm til átta. Við höfum verið að spila jafna leiki í vetur við liðin sem enduðu þarna í fyrra, þó svo að úrslitin hafi ekki verið að falla með okkur."

„Við viljum aðallega eiga skemmtilegt sumar. Sem þriðji þjálfarinn á innan við ári tel ég uppblásnar skammtímalausnir eða stórar yfirlýsingar um árangur ekki það rétta í stöðunni. Vonandi getum við notað sumarið í að þróa grunngildi og einkenni á liðinu og búið í leiðinni til spennu, góðan anda og kjarna í kringum félagið sem við getum nýtt til næstu ára," sagði Þórhallur.

Liðið hefur fengið til sín þrjá leikmenn á síðustu dögum. Þar á meðal miðjumanninn, Archie Nkumu sem hefur gert það gott með KA síðustu ár í Inkasso og Pepsi deildinni.

„Við vissum að við myndum bæta við leikmönnum frá þjálfaraskiptum enda hópurinn búinn að vera mjög lítill í vetur. Við höfum misst stóra pósta úr hópnum frá því síðasta sumar þar sem liðið endaði í 5. sæti. Við vorum með tvo þungaviktar framherja uppá topp í Viktori og Emil sem spila verðskuldað í Pepsi Max í sumar. Það er og verður ekki auðvelt að fylla þessi skörð. Við erum bara að bregðast við með að fá nýja leikmenn inní hópinn sem vonandi hrista upp í þessu hjá okkur í sumar," sagði Þórhallur sem vildi lítið gefa upp hvort liðið bæti við sig fleiri leikmönnum.

„Við verðum bara að sjá til með það. Augun eru opin."

Að lokum var Þórhallur spurður að því hvort Þróttur ætti raunhæfan möguleika á að berjast í toppbaráttunni.

„Nei, nei. Það er mikilvægt að við hefjum þetta verkefni í jarðtengingu og byggjum ofan á það. Það vannst ekki mótsleikur í vetur og það yrði furðuleg skilaboð í dag að tala um toppbaráttu sem raunhæfan möguleika," sagði Þórhallur að lokum í samtali við Fótbolta.net.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner