Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   sun 26. apríl 2020 14:00
Ívan Guðjón Baldursson
Diego Costa: Conte myndi ekki endast eitt tímabil hjá Real Madrid
Mynd: Getty Images
Diego Costa spilaði undir stjórn Antonio Conte hjá Chelsea og unnu þeir ensku úrvalsdeildina saman 2017.

Þeim kom þó ekki vel saman og segir Costa að þjálfarinn þurfi að breyta aðferðum sínum vilji hann vera talinn til þeirra allra bestu í heimi um þessar mundir.

„Okkur Conte kom ekki vel saman utan vallar en ég tel hann samt vera virkilega góðan knattspyrnustjóra. Ég ber engar slæmar tilfinningar í hans garð," sagði Costa við ESPN.

„En ef hann vill verða að alvöru stjóra í heimsklassa þá verður hann að breyta mannlegu hlið þjálfunaraðferðar sinnar. Hann er mjög tortrygginn, hann myndi ekki endast eitt tímabil hjá félagi eins og Real Madrid."

Costa rifjaði svo upp ákvörðun sína árið 2013, þegar hann valdi að spila fyrir spænska landsliðið frekar en það brasilíska.

„Scolari (þáverandi þjálfari Brasilíu) sagðist ætla að nota mig en gerði það ekki. Eftir vináttuleik við Rússland sagðist hann ætla að gefa mér fleiri mínútur því ég hafði fengið svo lítinn spiltíma með landsliðinu. Ég held hann hafi bara sagt það til að rugla í hausnum á mér.

„Ég man að nokkrir sóknarmenn voru meiddir en samt fékk ég ekki kallið. Ég þagði en var svo ekki valinn fyrir Álfukeppnina. Allt í einu fékk ég tækifæri til að spila fyrir spænska landsliðið og greip það.

„Hvernig gat ég sagt nei? Allt í einu var ég í byrjunarliði Spánverja og fólk var að tala um að Scolari vildi mig. Hann hringdi aldrei í mig. Hvernig gat það verið að hann vildi mig? Í fjölmiðlum var ég svo ásakaður um að eyðileggja drauma samlanda minna.

„Af hverju sagði hann ekki bara að hann hafi ekki reynt að fá mig í landsliðið? Það er svo einfalt."

Athugasemdir
banner
banner
banner