sun 26. apríl 2020 06:00
Ívan Guðjón Baldursson
Efstu deildir í Austurríki og Póllandi fara af stað í maí
Böðvar Böðvarsson leikur fyrir Jagiellonia í Póllandi.
Böðvar Böðvarsson leikur fyrir Jagiellonia í Póllandi.
Mynd: Böðvar Böðvarsson
Fótboltaheimurinn virðist hægt og rólega vera að komast aftur í gang. Það voru jákvæðar fregnir að berast frá Póllandi og Austurríki, sem stefna á að byrja keppnisleiki í fótbolta í næsta mánuði.

Þjóðverjar munu væntanlega vera fyrstir af stað þar sem Bundesligan á að hefjast í fyrri hluta maí, eða eftir tvær vikur. Ítölsk félög stefna á að hefja hefðbundnar æfingar um miðjan maí og byrja deildina í júní, ekki ósvipað áformum Englendinga og Spánverja.

Það eru þó minnst tvær aðrar evrópskar deildir, fyrir utan þá þýsku, sem stefna á að hefja leik í maí. Efsta deild í Austurríki fer vonandi af stað um miðjan mánuð og efsta deild í Póllandi á að hefjast síðustu helgi mánaðarins.

Austurríkismenn eru byrjaðir að æfa með meters millibili og mega Pólverjar hefja svoleiðis æfingar 4. maí. Menn fá því um þrjár vikur til að koma sér aftur í stand.

Allir leikir munu fara fram fyrir luktum dyrum og eru ríkisstjórnir beggja landa að vinna hörðum höndum að því að hjálpa knattspyrnuheiminum að komast aftur í gang. Ekkert getur þó fengist staðfest eins og er, enda er nánasta framtíð gríðarlega óljós í miðjum heimsfaraldri.
Athugasemdir
banner
banner
banner