Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   sun 26. apríl 2020 10:30
Ívan Guðjón Baldursson
Immobile: Emery vissi ekki neitt í sinn haus
Mynd: Getty Images
Ítalski sóknarmaðurinn Ciro Immobile hefur verið að raða inn mörkunum með Lazio í ítölsku Serie A deildinni undanfarin ár.

Þetta tímabilið er hann langmarkahæstur með 27 mörk og 7 stoðsendingar í 26 deildarleikjum og er Everton meðal áhugasamra félaga. Í heildina hefur Immobile, 30 ára, skorað 94 deildarmörk í 131 leik fyrir Lazio í efstu deild.

Hann ræddi um Simone Inzaghi, þjálfara Lazio sem hefur fengið mikið hrós fyrir starf sitt hjá félaginu, og líkti honum við Jürgen Klopp, stjóra Liverpool. Þar að auki ræddi hann ítalska boltann og fortíðina, en hann spilaði fyrir Borussia Dortmund og Sevilla utan landsteinanna, án árangurs.

„Inzaghi er algjörlega evrópskur stjóri og líkist Klopp sérstaklega þegar kemur að orkunni sem hann gefur frá sér. Hálfleiksræðurnar hans eru rafmagnaðar," sagði Immobile.

„Þegar ég skipti til Lazio þá var þetta eina félagið sem ég vildi. Ég trúði á verkefnið og gerði vel að setja ekki of mikla pressu á mig eins og ég gerði hjá Dortmund. Hjá Dortmund átti ég að taka við af Lewandowski og hjá Lazio af Klose.

„Þegar ég var hjá Sevilla þá leið mér illa og ég fékk lítið af tækifærum. Ég vildi fara í janúar en Unai Emery bað mig um að vera áfram og ég skoraði tvisvar en svo var ég settur aftur á bekkinn. Ég hugsaði með mér að Emery vissi ekki neitt í sinn haus, eins og maður hugsar þegar manni líður ekki eins og hluta af leikmannahópnum, og fékk að fara til Torino."


Immobile hefur skorað 10 mörk í 39 landsleikjum fyrir Ítalíu og er Lazio sagt ekki sætta sig við minna en 60 milljónir evra fyrir markavélina sína.
Athugasemdir
banner
banner
banner