Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   sun 26. apríl 2020 10:00
Ívan Guðjón Baldursson
Pardew vill ekki bónus fyrir að halda liðinu uppi
Mynd: Getty Images
Alan Pardew var ráðinn sem stjóri ADO Den Haag um síðustu jól með það sem markmið að bjarga félaginu frá falli úr efstu deild í Hollandi.

Pardew tókst ekki ætlunarverk sitt og er Den Haag í afar slæmri stöðu, sjö stigum frá öruggu sæti þegar átta umferðir eru eftir. Undir stjórn Pardew hefur liðið aðeins unnið einn leik, gert þrjú jafntefli og tapað fjórum, sem gerir sex stig í átta leikjum.

Í samningi Pardew er sérstakur bónus sem veitir honum 100 þúsund pund, eða rúmlega 18 milljónir króna, fyrir að bjarga liðinu frá falli.

Hollenska knattspyrnusambandið staðfesti fyrir helgi að tímabilið þar í landi yrði gert ógilt og því mun Den Haag ekki falla, nema ákvörðunin verði tekin til baka. Slúðurmiðlarnir á Englandi byrjuðu strax að skrifa um bónusinn og fullyrtu að hann yrði borgaður út.

Pardew segist ekki búast við að fá bónusinn, þar sem hann sé ekki ástæðan fyrir því að félagið bjargaði sér frá falli. Ef hann fær þó bónusinn þá hefur hann heitið því að gefa hann allan annað hvort til félagsins eða heilbrigðisstarfsfólks í Haag.

„Það er rétt að ég átti að fá bónus fyrir að halda félaginu í efstu deild. ADO Den Haag fellur ekki en það er ekki mér að þakka. Ég gæti kannski krafist þess að fá bónusinn greiddan, en haldið þið í alvöru að það sé eitthvað sem ég myndi gera? Á þessum tímum, undir þessum kringumstæðum?" sagði Pardew við hollenska fjölmiðla.

„Það særir mig að fólk heldur að þetta sé eitthvað sem ég myndi gera. Ef ég fæ bónus þá vil ég hann ekki. Ég myndi gefa hann aftur til félagsins, sem myndi biðja mig um að gera eitthvað góðverk. Ég myndi persónulega láta allan peninginn renna til heilbrigðisstarfsfólks í Haag."

Pardew er 58 ára gamall og hefur áður stýrt félögum á borð við West Ham, Southampton, Newcastle og Crystal Palace.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner