þri 26. júní 2018 12:00
Arnar Daði Arnarsson
Álitsgjafar svara: Hver er lykillinn til að vinna Króatíu?
Icelandair
Emil Hallfreðsson kemur líklega inn í byrjunarlið Íslands.
Emil Hallfreðsson kemur líklega inn í byrjunarlið Íslands.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kári og Raggi standa vaktina í vörninni.
Kári og Raggi standa vaktina í vörninni.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ísland mætir Króatíu í þriðja leik sínum á HM klukkan 18:00 í Rostov við Don í kvöld.

Fótbolti.net fékk nokkra álitsgjafa til að rýna í leikinn.

Guðlaugur Baldursson, þjálfari Keflavíkur:
Króatíska landsliðið er vafalítið eitt af þeim betri sem eru að spila á HM í þetta skiptið - leikur þeirra og úrslit í tveimur fyrstu umferðunum sýna það.
Það verður áhugavert að sjá hvernig liðsvalið verður hjá þeim í þessum leik hvort leikmenn verði hvíldir eður ei. Ég er ekkert viss um að það sé neitt betra fyrir okkur að það komi "minni spámenn" inn í liðið... og einnig það að sú staða að Króatar eigi möguleika á því að gera margar breytingar á liði sínu gerir greiningarstarf þjálfaranna og þeirra aðstoðarmanna jafnvel flóknara og erfiðara.

Lykillinn að því að vinna Króatíu er margþættur. Það er klárt að til þess að það náist þá þarf mikill meirihluti okkar leikmanna að ná að framkalla frammistöðu sem er nálægt þeirra besta. Varnarlega þurfum við að minnka plássið sem miðjumenn þeirra fá þannig að þeir fái ekki tíma til þess að stýra leiknum þaðan. Við þurfum ná að halda í boltann þegar hann vinnst og nýta möguleiknana okkar í föstum leikatriðum.

Orri Sigurður Ómarsson, leikmaður Ham/Kam:
Ég held að það skipti mestu máli að halda í það sem hefur verið að virka fyrir okkur. Þéttir til baka og halda núllinu og síðan nýta þessi færi sem við fáum alltaf. Mér fannst vandamálið í Nígeríu leiknum að við ætluðum of mikið að reyna stjórna spilinu í seinni hálfleik og fórum of ofarlega á þá.

Það sem hefur virkað fyrir okkur og virkar fyrir okkur er að vera þéttir til baka og nýta föstu leikatriðin og ég held að það sé mikilvægast að halda í okkar leik. Króatar koma brjálaðir í þennan leik þar sem það eru margir frískir leikmenn sem vilja sanna sig. Ég tel það jákvætt fyrir okkur, margir leikmenn sem ætla líklega að reyna sína of mikið og það kemur í bakið á þeim

Eysteinn Húni Hauksson, aðstoðarþjálfari Keflavíkur:
Verkefnið er gríðarstórt og krefjandi að öllu leyti og því eru þolinmæði, agi, hugrekki og trú auk granít- liðsheildar algjörir grunnlyklar og er ekki vandamál hjá okkar magnaða liði. Ég vitna svo bara í meistara Guðna Kjartans og segi að ef varnarmenn okkar láta ekki plata sig, valda hver annan, dekka mennina sína, leyfa Króötum ekki að skjóta á markið í friði og tapa boltanum ekki nálægt eigin marki, þá ætti það að duga til að halda markinu hreinu og þá þarf bara eitt mark, og það er lykill að þurfa ekki mikið meira en það. Þá kemur að næsta lykli og sá er að nýta föstu leikatriðin okkar til hins ítrasta og að nýta okkur öll þau mistök sem Króatarnir gera, sem eru yfirleitt afar fá.

Ef þeir hvíla marga leikmenn hlýtur það samt að auka líkurnar á einhverjum misskilningi. Ég held að þetta þurfi ekki að vera neitt mikið flóknara. Ég er löngu hættur að gera þau mistök að efast um möguleika þessara stráka og hef því fulla trú á að þeir klári sitt, þó Króatarnir séu á miklu flugi. Samtakamátturinn er óviðjafnanlegt afl. Áfram Ísland!

Benedikt Bóas Hinriksson, stjörnublaðamaður:
Lykillinn er að stoppa Modric. Þetta er ekkert flókið. Hann er bæði potturinn og pannan og bara allt í öllu. Ef hann verður stoppaður þá eigum við séns. Ég vona að hann verði hvildur. Þá eigum við meiri séns. En lykillinn er að þrauka 90 mín og ná að nýta eitt fast leikatriði. Þau hafa nú ekki beint verið að gefa svo ég vona að það smelli. Spáin er 2-0. Emil og Björn Bergmann með mörkin. Óttast samt að Kroatar séu í einhverjum hefndarhug. Það gæti verið erfitt.

Gunnar Birgisson, RÚV:
Liðið þarf að vera undirbúið undir allt. Eins og staðan er núna kæmi mér lítið á óvart ef Davor Suker myndi byrja leikinn á morgun útaf öllu þessu tali um breytingar. En þetta verður erfitt, strákarnir verða að reyna að halda þessu í núllinu í hálfleik og reyna að opna þá aðeins á síðustu 20-30 mín. Lykillinn er að vera þéttir aftast og vera óhræddir við að halda boltanum, æra óstöðuga gaura eins og Mandzukic og fleiri og hleypa leiknum upp í vitleysu ef því er að skipta. Við erum sterkari í höfðinu en þessir Króatar, þeir finna fyrir pressunni.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner