þri 26. júní 2018 16:31
Ívan Guðjón Baldursson
Þarf að þylja fréttir meðan Ísland spilar við Króatíu
Mynd: Getty Images
Þorbjörn Þórðarson, fréttamaður á Stöð 2, var tekinn í viðtal af breska miðlinum Guardian fyrir leik Íslands gegn Króatíu á Heimsmeistaramótinu.

Ísland verður að vinna leikinn til að eiga möguleika á að komast í 16-liða úrslitin, þar sem Frakkar bíða spenntir.

Ástæðan fyrir því að Þorbjörn var tekinn í viðtal er að hann verður maðurinn sem þylur upp kvöldfréttir Stöðvar 2 í kvöld, en viðureign Íslands og Króatíu hefst hálftíma fyrir fréttatímann.

Það er því ekki búist við miklu áhorfi á fréttirnar, sérstaklega ekki eftir að ákveðin tölfræði blossaði upp eftir 1-1 jafntefli við Argentínu í fyrstu umferð. Þar kom í ljós að 99,6% þeirra sem voru með kveikt á sjónvarpinu hér á landi voru að horfa á landsleikinn.

„Ég var að ljúka viðtali við aðstoðarbankastjóra Seðlabanka Íslands sem er að segja af sér eftir 28 ár í starfi, það er frekar stór frétt," sagði Þorbjörn, sem segir starfsmenn hafa rætt áhorfendatölur kvöldsins á fundi í morgun.

„Við áttum góðan fund í morgun þar sem hugmyndin kom að við gætum sagt áhorfendum hver staðan er í leiknum meðan fréttatíminn er í gangi.

„Við áttum okkur fullkomlega á því að við verðum með skelfilegt áhorf í kvöld, en við verðum að koma fréttunum út. Fréttirnar mega ekki stoppa þó það sé fótboltaleikur í gangi."


Þorbjörn fullvissaði fréttamann Guardian þó um að það sé nóg af sjónvarpsskjám í fréttastofu Stöðvar 2 til að hann sjálfur missi ekki af of stórum hluta leiksins.

„Tapið gegn Nígeríu var mjög slæmt í ljósi þess að við höfðum góða möguleika á að komast upp úr riðlinum eftir jafntefli við Argentínu. Væntingarnar hérna eru samt alltaf mun hófstilltari heldur en á Englandi.

„Fjölmiðlaumfjöllun spilar stóran þátt í stemningunni sem myndast í kringum landsliðið og þar mega enskir fjölmiðlar bæta sig. Þeir eru of snöggir að gagnrýna liðið þegar illa gengur."

Athugasemdir
banner
banner
banner
banner