Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   mið 26. júní 2019 14:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Finnur Tómas: Nafn mitt alltof mikið í umræðunni
Finnur Tómas í leik með KR í sumar.
Finnur Tómas í leik með KR í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Finnur lék sinn fyrsta leik í Pepsi Max-deildinni gegn HK. Hér er hann í baráttunni í þeim leik.
Finnur lék sinn fyrsta leik í Pepsi Max-deildinni gegn HK. Hér er hann í baráttunni í þeim leik.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
„Það er gríðarlegur heiður að fá að spila og æfa með leikmönnum sem ég hef horft á síðan ég var lítill.
„Það er gríðarlegur heiður að fá að spila og æfa með leikmönnum sem ég hef horft á síðan ég var lítill.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Finnur í leik með Þrótti í fyrra.
Finnur í leik með Þrótti í fyrra.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
KR er á toppi deildarinnar. Liðið hefur unnið sjö leiki í röð í deild og bikar.
KR er á toppi deildarinnar. Liðið hefur unnið sjö leiki í röð í deild og bikar.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
„Það er gríðarlegur heiður að fá að spila og æfa með leikmönnum sem ég hef horft á síðan ég var lítill, og til að gera það enn betra þá eru þeir allir frábærar manneskjur sem hjálpa mér mikið," segir Finnur Tómas Pálmason, varnarmaður KR.

Finnur Tómas er aðeins 18 ára en hefur komið eins og stormsveipur inn í Pepsi Max-deildina. Síðan Finnur, sem er fæddur árið 2001, kom inn í lið KR hefur það unnið alla leiki í deild og bikar.

Síðustu þrír leikir KR hafa verið gegn FH, Val og ÍA - þremur af sterkustu liðum deildarinnar. Þessir leikir hafa allir unnist með Finn Tómas í hjarta varnarinnar.

Hér að neðan má sjá tíst frá íþróttafréttamanninum Ingva Þór Sæmundssyni. Síðan hann birti þetta tíst hefur KR spilað gegn FH og Val. Leikurinn gegn Val vannst 3-2 og leikurinn gegn FH fór 2-1 fyrir KR-inga.


KR er nú komið á topp deildarinnar og það er meistarabragur yfir liðinu sem spilar á Meistaravöllum.

Þrátt fyrir að hafa aðeins spilað í sigurleikjum í sumar segist Finnur ekki vera búinn að gleyma hvernig tilfinning er að tapa. Hann segir jafnframt að honum finnist nafn sitt vera of mikið í umræðunni. Hann hrósar Arnþóri Inga Kristinssyni, sem hefur komið mjög sterkur inn á miðjuna hjá KR.

„Nei alls ekki. Auðvitað gleymi ég ekki hvernig tilfinningin er eftir tapleiki. Mér finnst nafn mitt alltof mikið í umræðunni bara af því að ég er 18 ára, en fólk gleymir því að Arnþór kom inn á sama tíma og ég inn í liðið og hann á risastóran hluta í þessum sigrum hjá okkur. Hann hjálpar bæði varnarlínunni mjög mikið og leyfir öðrum leikmönnum að taka sénsa fram á við," segir Finnur.

Nokkuð ánægður með sína byrjun
Finnur Tómas kom inn í byrjunarlið KR þann 20. maí síðastliðinn. Hann hefur hrifið enska fjölmiðlamanninn Lucas Arnold, sem og fleiri, og er hann sjálfur nokkuð ánægður með sína byrjun í Pepsi Max-deildinni.


„Jújú svo sem. Þetta byrjaði svolítið brösulega í fyrsta leik gegn HK, en svona heilt yfir er ég bara nokkuð sáttur með mína spilamennsku. Auðvitað geri ég mistök en það hjálpar mér bara að verða betri," segir Finnur sem bjóst ekki endilega við því að vera í svona stóru hlutverki eins og hann hefur verið í að undanförnu.

„Ekkert endilega. Auðvitað fór ég í gegnum undirbúningstímabilið með það markmið að vera í liðinu í sumar, en ég myndi samt ekki segja að ég sé í einhverju "stóru" hlutverki innan liðsins - að minnsta kosti ekkert í líkingu við þessa reynslumeiri leikmenn eins og Pálma og Óskar."

Steig sín fyrstu skref í meistaraflokki með Þrótti
Í fyrra lék Finnur með Þrótti Reykjavík í Inkasso-deildinni. Þar steig hann sín fyrstu skref í meistaraflokki. Hann lék 12 leiki í næst efstu deild.

Þetta tímabil sem ég tók í Laugardalnum var mjög skemmtilegt og eitthvað alveg nýtt fyrir mér. Ég vissi það alveg sjálfur í fyrra að ég var ekki alveg tilbúinn í að spila fyrir meistaraflokk KR en langaði samt ekki að taka annað sumar í 2. flokki þannig að Þróttur bauðst til að hýsa mig yfir sumarið og það var bara frábært."

Beitir er geggjaður
Það eru margir leikmenn í KR-liðinu sem hafa verið að spila vel í sumar og einn af þeim er markvörðurinn Beitir Ólafsson. Hann hefur varið mark KR með mikilli prýði í Pepsi Max-deildinni í sumar.

Beitir var í raun hættur í fótbolta þegar KR-ingar lentu í meiðslavandræðum hjá markvörðum sínum sumarið 2017. Beitir hafði leikið fyrir Keflavík sumarið á undan en var búinn að leggja hanskana á hilluna. Hann hefur varið mark KR síðan og gert það mjög vel.

„Beitir er geggjaður. Það er ekki flóknara en það. Hann er svo öruggur í öllu sem hann gerir og ótrúlega þægilegt að spila með honum. Hann tekur alla bolta sem koma á markið og bjargar nánast liðinu í hverjum einasta leik," segir Finnur um hvernig það er að spila fyrir framan Beiti.

Smelltu hér til að skoða viðtal sem var tekið við Beiti í útvarpsþættinum Fótbolta.net um síðustu helgi.

Mikil gleði þessa dagana
Það er mikil stemning í Vesturbænum um þessar mundir. Stuðningsmenn KR eru farnir að vakna til lífsins og lið KR lítur mjög vel út inn á vellinum.

„Mér finnst að minnsta kosti mjög góð stemning innan liðsins. Það er mikil gleði þessa dagana í kringum KR og á meðan svona vel gengur þá breytist það ekkert," segir þessi uppaldi KR-ingur.

Verður KR ekki meistari?

„Ég vona það, en það er mikið eftir af mótinu og ég reyni að pæla ekki lengra fram í tímann en næsta leik."

Að lokum var Finnur spurður út í markmið sín í fótboltanum.

„Ég er ekki með eitthvað sérstakt markmið. Ég tek bara einn dag í einu og mæti á æfingar hjá KR. Auðvitað ef það er eitthvað erlent lið sem vill fá mig og mér finnst það vera rétta skrefið fyrir mig þá mun ég skoða það, en núna er ég bara að hugsa um að spila vel fyrir KR."

Næsti leikur hjá KR er gegn Inkasso-liði Njarðvík í 8-liða úrslitum Mjólkurbikarsins á morgun.
Stöðutaflan
  L U J T ms: mf: mun Stig
0 0 0 0 0 0 0 0 0
Athugasemdir
banner
banner
banner