Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
banner
   mið 26. júní 2019 13:30
Arnar Daði Arnarsson
Jón Dagur: Risastórt félag með stór markmið
Jón Dagur.
Jón Dagur.
Mynd: Fótbolti.net - Elvar Geir Magnússon
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jón Dagur Þorsteinsson er orðinn leikmaður AGF í Danmörku en hann var kynntur með Víkingaklappi á samfélagsmiðlum félagsins. Jón Dagur yfirgefur herbúðir enska félagsins Fulham.

„Þetta var ekki langur aðdragandi. Það var einhver áhugi annarsstaðar en mér fannst mest spennandi að koma hingað. Þetta hefur sennilega tekið allt í allt viku að ganga frá þessu," sagði Jón Dagur Þorsteinsson leikmaður AGF í samtali við Fótbolta.net.

Jón Dagur var á láni hjá Vendsyssel í dönsku úrvalsdeildinni á liðnu tímabili og stóð sig vel. Félagið féll niður um deild og segir Jón að það hafi ekki komið til greina að vera áfram hjá félaginu.

„Ég ákvað það frekar snemma á tímabilinu í fyrra að ég vildi ekki vera áfram hjá Vendsyssel."

„Mér finnst danska deildin spennandi. Mér finnst ég líka eiga töluvert inni eftir síðasta tímabil sem var mitt fyrsta tímabil hér í Danmörku og það tók sinn tíma að aðlagast hér. Ég held að ég geti sýnt mig betur hér og bætt minn leik enn meira," sagði Jón Dagur sem vonast eftir stóru hlutverki hjá AGF.

„Fyrst og fremst þarf ég að koma mér inn í hlutina hér og síðan þegar ég fæ tækifæri þá fer það auðvitað bara eftir því hvernig ég stend mig hversu stórt hlutverk ég fæ hjá liðinu."

„Þetta er risastórt félag í Danmörku og er með stór markmið. Seinustu ár hafa verið vonbrigði hjá þeim. Árósum er næst stærsta borgin í Danmörku og það segir sig sjálft að þetta er stórt félag hér í Danmörku," sagði Jón Dagur sem hefur æfingar hjá nýju AGF 1. júlí.

Fyrsti leikur AGF í dönsku úrvalsdeildinni fer fram 15. júlí þegar liðið heimsækir Hobro.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner