mið 26. júní 2019 11:57
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Man Utd nær samkomulagi um kaup á Wan-Bissaka
Mynd: Getty Images
Manchester United hefur náð samkomulagi við Crystal Palace um kaup á Aaron Wan-Bissaka. Simon Stone og David Ornstein, blaðamenn BBC, segja þetta.

United mun greiða 45 milljónir punda fyrir Wan-Bissaka og gæti kaupverðið hækkað um 5 milljónir punda.

Þessi 21 árs gamli hægri bakvörður mun fara í læknisskoðun hjá United áður en hann fer í frí. Hann var að spila á EM með U21 landsliði Englands.

United hefur boðið Wan-Bissaka langtímasamning og allt að 80 þúsund pund í vikulaun. Hann er með 10 þúsund pund í vikulaun hjá Crystal Palace.

Wan-Bissaka kom inn í akademíu Palace þegar hann var 11 ára og lék sinn fyrsta leik fyrir aðalliðið 2018. Hann var frábær á síðustu leiktíð fyrir félagið.

Hann verður fimmti dýrasti leikmaður í sögu United á eftir Paul Pogba, Romelu Lukaku, Angel Di Maria og Fred.

Ef gengið verður frá kaupunum þá verður hann annar leikmaðurinn sem Man Utd fær í sumar á eftir Daniel James, efnilegum kantmanni sem kom frá Swansea fyrir 15 milljónir punda.

Eitt af því sem hefur verið að tefja viðræðurnar á milli United og Palace er ákvæði í samningi Wilfried Zaha, leikmanns Crystal Palace. Zaha var seldur frá United til Palace árið 2015 og var þá sett ákvæði í samning hans að Man Utd myndi fá 25% af ágóðanum af næstu sölu. Palace vildi losna við það sem hluta af sölunni á Wan-Bissaka, en United neitaði. Það ákvæði verður áfram í samningi Zaha.

Manchester United hafnaði í sjötta sæti ensku úrvalsdeildarinnar á síðasta tímabili.

Sjá einnig:
Gömul mynd af Wan-Bissaka í Man Utd treyju


Athugasemdir
banner
banner
banner