fös 26. júní 2020 17:25
Magnús Már Einarsson
Best í 3. umferð: Langar að fara út á einhverjum tímapunkti
Hlín fagnar marki gegn Þór/KA.
Hlín fagnar marki gegn Þór/KA.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hlín Eiríksdóttir skoraði þrennu og var í miklu stuði þegar Valur burstaði Þór/KA 6-0 í þriðju umferð Pepsi Max-deildar kvenna í vikunni. Hlín er leikmaður umferðarinnar á Fótbolta.net.

Hver var lykillinn að þessum stórsigri að hennar mati? „Fyrst og fremst mikil samstaða í liðinu. Við spiluðum bara okkar leik frá byrjun, héldum boltanum vel, sóttum þegar við fundum glufur í vörninni hjá þeim og nýttum færin okkar. Mér fannst pressan líka góð hjá okkur og svo greip Sandra vel inní þegar Þór/KA stelpurnar gerðu sig líklegar," sgaði Hlín.

Hlín hefur byrjaði deildina af miklu krafti og er nú þegar búin að skora fjögur mörk í fyrstu þremur umferðunum.

„Ég fékk náttúrulega mjög gott svigrúm til að vinna í allskonar þáttum sem ég persónulega vildi bæta á þessu langa undirbúningstímabili og mér fannst ég nýta tímann vel. Ég hef verið vel stemmd uppá síðkastið rétt eins og allir leikmenn liðsins. Þó við höfum ekki fengið neitt sérstaklega langan tíma saman sem lið höfum við náð að slípa okkur vel saman sem er búið að skila okkur 9 stigum og ágætis frammistöðu hingað til," sagði Hlín en hún hefur verið duglegur á aukaæfingum hjá Eiði Ben Eiríkssyni aðstoðarþjálfara.

„Að sjálfsögðu hjálpar það mér að æfa sem best. Við í Val höfum mjög greiðan aðgang að séræfingum með þjálfara sem ég nýti mér óspart þegar leikjaálagið er minna. Ég reyni samt að æfa vel þegar ég er á æfingu frekar en að einbeita mér of mikið að því að æfa sem mest," sagði Hlín sem hefur náð góðri samvinnu með Elínu Metu Jensen í fremstu víglínu.

„Mér finnst henta mér mjög vel að spila með Elínu. Það er alltaf hægt að gefa á hana og svo erum við farnar að þekkja hvor aðra býsna vel sem hjálpar auðvitað mikið."

Valur varð Íslandsmeistari í fyrra eftir harða baráttu við Breiðablik um titilinn. Stefnir í annað einvígi hjá þeim um titilinn? „Ekkert frekar, það hefur sýnt sig í fyrstu þremur umferðunum að deildin er frekar jöfn. Við spilum bara tvo deildarleiki við Breiðablik í sumar eins og við öll önnur lið."

Málfríður Arna og Anna, systur Hlínar, leika einnig með Val. Hvernig er að eiga tvær systur í sama liðinu? „Það hefur sína kosti og galla. Það kom sér vel í samkomubanninu að ganga að tveimur æfingafélögum sem vísum en þær geta verið þreytandi líka. Þær eru fínar í hófi rétt eins og aðrir."

Hlín er tvítug en hún setur stefnuna hátt í framtíðinni og að komast að í atvinnumennsku erlendis. „Já, mig langar að fara út á einhverjum tímapunkti. Ég er samningsbundin Val núna þannig að ég hef ekki verið að spá í það hvort að erlend lið hafi áhuga en ég mun skoða það þegar þar að kemur," sagði Hlín.

Domino's gefur verðlaun
Leikmenn umferðarinnar í Pepsi Max-deild karla og kvenna fá verðlaun frá Domino's í sumar.

Sjá einnig:
Best í 1. umferð - Katla María Þórðardóttir (Fylkir)
Best í 2. umferð - Hulda Ósk Jónsdóttir (Þór/KA)
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner