fös 26. júní 2020 14:05
Ívan Guðjón Baldursson
Inter að kaupa Hakimi fyrir rúmlega 40 milljónir
Hakimi er búinn að skora þrjú mörk í síðustu átta deildarleikjum. Hann skoraði tvennu gegn Inter í nóvember.
Hakimi er búinn að skora þrjú mörk í síðustu átta deildarleikjum. Hann skoraði tvennu gegn Inter í nóvember.
Mynd: Getty Images
Ítalskir og spænskir fjölmiðlar keppast við að greina frá því að Inter er að ganga frá kaupum á Achraf Hakimi, bakverði og kantmanni Real Madrid sem hefur gert frábæra hluti að láni hjá Borussia Dortmund síðustu tvö ár.

Þessar fregnir eru svo gott sem staðfestar og er greint frá því að Inter greiðir 40 milljónir evra fyrir Hakimi, auk ýmissa árangurstengdra aukagreiðslna.

Antonio Conte hefur verið að leita að réttum leikmanni fyrir hægri vænginn frá því hann tók við Inter. Antonio Candreva hefur átt stöðuna en Valentino Lazaro, Danilo D'Ambrosio og Victor Moses hefur mistekist að veita honum raunverulega samkeppni.

Vængirnir hjá Inter skila inn miklu vinnuframlagi þar sem Conte býst við að þeir skili bæði inn varnar- og sóknarvinnu í 3-5-2 leikkerfinu.

Hakimi er fastamaður í byrjunarliði Dortmund þar sem hann hefur ýmist leikið sem hægri bakvörður eða partur af sóknarlínu liðsins á hægri kanti. Hann er 21 árs gamall og á 28 A-landsleiki að baki fyrir Marokkó.

Hakimi lék sautján leiki fyrir Real Madrid áður en hann var lánaður til Dortmund sumarið 2018. Hann á 72 leiki að baki fyrir Dortmund.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner