Amorim, Frank, Ten Hag, De Bruyne, Isak, Olise, Gyökeres og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
banner
   mán 26. júlí 2021 23:39
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
„Erfitt að berjast um stöðu við einn besta leikmann íslenskrar knattspyrnu undanfarin 20 ár"
Stefán Árni
Stefán Árni
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Óskar Örn
Óskar Örn
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Stefán Árni Geirsson átti virkilega góðan leik fyrir KR þegar liðið vann afskaplega sannfærandi sigur á Fylki í kvöld. Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson, fréttaritari Fótbolta.net á Meistarvöllum í kvöld, valdi Stefán mann leiksins.

„Stórhættulegur þegar hann keyrir á varnir andstæðinganna. Hann skoraði ekki en hann gerði allt annað gríðarlega vel. Frábær leikmaður sem á að spila meira en hann hefur gert," skrifaði Gummi um Stefán Árna.

Lestu um leikinn: KR 4 -  0 Fylkir

Kallað hefur verið eftir því að Stefán spili meira í liði KR en það er ljóst að samkeppnin er mikil. Óskar Örn Hauksson er fastamaður í liðinu og þá geta þeir Kristján Flóki Finnbogason, Ægir Jarl Jónasson og Atli Sigurjónsson leyst þær stöður sem Stefán er vanur að spila.

Stefán var spurður út í samkeppnina og mínútufjölda í sumar í viðtali eftir leik.

Mikið talað um að þú sért í samkeppni við Óskar Örn, núna færðu að spila með honum. Hvernig er að spila með honum?

„Það er mjög gott. Ég er samt ekkert þannig séð bara í samkeppni við hann, ég get spilað á mörgum stöðum á vellinum þannig þetta er ekkert bara milli mín og hans. Hann er háklassaleikmaður eins og sást í dag," sagði Stefán.

Viltu ekkert vera að spila meira?

„Jú, 100 prósent. Það var brilljant að spila í dag og þetta er undir mér komið að fá að spila meira."

Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, var spurður út í Stefán Árna en hann kom inn í liðið fyrir Kjartan Henry Finnbogason sem tók út leikbann.

„Stefán er frábær fótboltamaður og hann er búinn að vera óheppinn undanfarið að þjálfarinn hefur sett hann á bekkinn. Það er erfitt að vera berjast um stöðu við kannski einn besta leikmann íslenskrar knattspyrnu undanfarin 20 ár, Óskar Örn Hauksson."

„Hinu megin erum við búnir að vera með Atla sjóðandi heitan eins og hann sýnir hér í dag. Við höfum mikla breidd og Stefán hefur því miður þurft að sitja á bekknum. Hann kom inn í dag og sýndi það að hann gerir tilkall til þess að vera í liðinu í næsta leik og í næstu leikjum með þessari frammistöðu,"
sagði Rúnar.
Rúnar Kristins: Gerðu það í 90 mínútur, ekki bara 45
Stefán Árni: Ég er þakklátur og glaður
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner