mán 26. ágúst 2019 06:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Torres algjör goðsögn í fótbolta"
Torres fagnar marki með Atletico.
Torres fagnar marki með Atletico.
Mynd: Getty Images
Diego Simeone.
Diego Simeone.
Mynd: Getty Images
Diego Simeone, stjóri Atletico Madrid, lýsir Fernando Torres sem „algjörri goðsögn í fótbolta", en Torres lék sinn síðasta leik á fótboltaferlinum á föstudaginn.

Hinn 35 ára gamli Torres lék sinn síðasta fótboltaleik er lið hans, Sagan Tosu tapaði 6-1 gegn Vissel Kobe í japanska boltanum. Torres mætti þar sínum gömlu landsliðsfélögum, Andres Iniesta og David Villa.

Torres spilaði 110 leiki fyrir spænska landsliðið og skoraði meðal annars sigurmarkið á EM 2008 og var meðal markaskorara í sigrinum á EM 2012.

Ferill hans hófst með Atletico Madrid áður en hann var keyptur til Liverpool þar sem hann skoraði 81 mark í 142 leikjum. Hann var svo keyptur til Chelsea fyrir 50 milljónir punda sem þá var breskt metfé.

Hann var ekki í sömu markaskónum á Stamford Bridge en var hluti af liðinu sem vann Meistaradeildina 2012. Þá vann hann einnig FA-bikarinn og skoraði í 2-1 sigri gegn Benfica í úrslitaleik Evrópudeildarinnar 2012.

Eftir 45 mörk í 172 leikjum hjá Chelsea átti hann stutt fjögurra mánaða stopp hjá AC Milan en mætti svo aftur til Atletico seint á árinu 2014.

Hann komst með Atletico í úrslitaleik Meistaradeildarinnar 2016 en þar beið liðið lægri hlut gegn Real Madrid. Hann vann þó sinn annan Evrópudeildarmeistaratitil 2018 en það var hans síðasti leikur með Atletico áður en hann hélt til Japan.

Torres spilaði undir stjórn Simeone þegar hann mætti til Atletico í annað sinn á ferlinum. Simeone talaði um Torres á blaðamannafundi um helgina.

„Fernando er mjög gáfaður, algjör goðsögn í fótbolta," sagði Simeone um fyrrum framherja sinn.
Athugasemdir
banner
banner
banner