Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mið 26. september 2018 10:08
Elvar Geir Magnússon
Zola sýnir þakklæti og auðmýkt
Gianfranco Zola við hlið Sarri.
Gianfranco Zola við hlið Sarri.
Mynd: Getty Images
Gianfranco Zola viðurkennir að það hafi komið sér mjög á óvart þegar hann fékk tilboð um að verða aðstoðarstjóri Chelsea. Sérstaklega í ljósi þess hve illa gekk hjá honum sem stjóri Birmingham en þar entist hann aðeins í fjóra mánuði og hætti í apríl 2017.

„Ég var undrandi þegar tækifærið kom, í ljósi þess hversu erfitt síðasta starf reyndist mér. Ég gat ekki trúað því, þetta var blessun og draumatækifæri," segir Zola sem var lykilmaður hjá Chelsea sem leikmaður 1996-2003

Hann segist leggja allt í að Maurizio Sarri og félagið njóti velgengni.

„Allir vita hversu vænt mér þykir um félagið, þetta er frábært tækifæri. En það er mikil vinna framundan svo ég geti sýnt að ég hafi átt það skilið. Ég er hér vegna Maurizio og vona að ég geti gefið mitt allra besta til að hann nái árangri. Hans árangur verður mitt stolt og gleði."

Zola segist hafa lært mikið af Sarri.

„Þetta er nýr heimur fyrir mig. Ég hélt að ég vissi mikið um fótbolta en ég hafði rangt fyrir mér. Það er stórkostleg reynsla fyrir mig að læra. Þó ýmislegt hafi gengið vel með West Ham þá var það ákveðið brjálæði að fara í mitt fyrsta þjálfarastarf sem stjóri West Ham í ensku úrvalsdeildinni. Ég skorti reynslu sem ég er núna að ná mér í," segir Zola.

Zola segist ekki hafa kynnst stjóra sem hugsi eins mikið um hvert einasta smáatriði og Sarri gerir.

„Ég hefði notið þess að spila í þessu liði. Ef þú skoðar tölfræðina þá erum við meirihluta leikja á vallarhelmingi andstæðingana og margar snertingar á síðasta þriðjungi."

Chelsea heimsækir Liverpool í deildabikarnum í kvöld en bæði lið munu væntanlega dreifa álaginu og hvíla menn í þessum leik.
Athugasemdir
banner
banner