fim 26. september 2019 21:51
Brynjar Ingi Erluson
Álasund úr leik í norska bikarnum - Aron átti að fá víti
Aron Elís Þrándarson var svekktur eftir leikinn
Aron Elís Þrándarson var svekktur eftir leikinn
Mynd: Fótbolti.net - Elvar Geir Magnússon
Anna Rakel spilaði í sigri
Anna Rakel spilaði í sigri
Mynd: Pétur Ólafsson
Norska liðið Álasund er úr leik í norska bikarnum í ár eftir að hafa tapaði fyrir Vking í vítakeppni í kvöld en fjórir Íslendingar spiluðu leikinn.

Aron Elís Þrándarson, Hólmbert Aron Friðjónsson og Daníel Leó Grétarsson voru allir í byrjunarliðinu hjá Álasundi á meðan Samúel Kári Friðjónsson kom inná á 82. mínútu.

Hólmbert fór af velli undir lok fyrri hálfleiks vegna meiðsla. Staðan var 1-1 eftir venjulegan leiktíma og fór því leikurinn í framlengingu.

Dómari leiksins virtist gera augljós mistök þegar fjórar mínútur voru búnar af framlengingunni en Aron Elís var þá tekinn niður í teignum en ekkert dæmt en af endursýningunni að dæma virtist þetta vera vítaspyrna. Aron var ósáttur er hann ræddi við NRK.

„Ég er einn á móti markverðinum þegar leikmaðurinn tekur mig niður. Hann fer í hrygginn á mér og sparkar svo í mig. Þetta er alger brandari og dómarinn er búinn að flauta okkur úr leik," sagði Aron við NRK.

Smelltu hér til að sjá atvikið

Lommel úr leik í belgíska bikarnum

Stefán Gíslason og lærisveinar hans í Lommel töpuðu naumlega fyrir Standard Liege í belgíska bikarnum, 2-1. Alexander Boljevic skoraði bæði mörk Standard en sigurmarkið kom í uppbótartíma síðari hálfleiks. Kolbeinn Þórðarson var á bekknum en kom inná á 82. mínútu.

Mikael Anderson var þá ekki í hópnum hjá Midtjylland sem tapaði óvænt fyrir Fremad Amager, 1-0, í danska bikarnum.

Theodór Elmar Bjarnason og hans menn í Akhisarspor eru þá úr leik í tyrkneska bikarnum eftir að hafa tapað fyrir Bayburt Özel Idarespor. Elmar lék allan leikinn fyrir Akhisarspor og klikkaði á víti í vítakeppninni.

Anna Rakel hafði betur í Íslendingaslag

Anna Rakel Pétursdóttir og stöllur hennar í Linköping unnu 4-1 sigur á Djurgården í sænsku úrvalsdeildinni í kvöld. Anna lék allan leikinn með Linköping á meðan Ingibjörg Sigurðardóttir spilaði allan leikinn fyrir gestina og nældi sér í gult spjald.

Linköping er í 6. sæti með 29 stig en Djurgården í næst neðsta sæti með 10 stig.


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner