banner
   mán 27. janúar 2020 08:30
Ívan Guðjón Baldursson
Di Marzio: Inter borgar 20 milljónir og æfingaleik fyrir Eriksen
Mynd: FIFA
Félagaskipti Christian Eriksen til Inter munu að öllum líkindum ganga í gegn í vikunni. Ítalskir fjölmiðlar segja að danski miðjumaðurinn verði staðfestur sem nýr leikmaður félagsins í dag.

Gianluca Di Marzio er meðal þeirra sem heldur þessu fram og er hann búinn að greina frá kaupverðinu sem Inter greiðir fyrir Eriksen, sem á ekki nema sex mánuði eftir af samningi sínum við Tottenham.

Di Marzio segir að Inter borgi 20 milljónir evra fyrir auk þess að spila æfingaleik gegn Tottenham, þar sem allur gróði fer til enska úrvalsdeildarfélagsins.

Daniel Levy, forseti Tottenham, var í góðri samningsstöðu og gaf ekkert eftir. Ítalska stórveldið vildi komast upp með að borga 10 milljónir evra en Levy bognaði ekki.

Inter er í öðru sæti ítölsku deildarinnar, þremur stigum eftir toppliði Juventus. Eriksen mun berjast við menn á borð við Stefano Sensi, Marcelo Brozovic og Nicoló Barella um byrjunarliðssæti.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner