Arsenal endurnýjar áhuga á Luiz - Man Utd reynir við Todibo - Tottenham vill Sudakov
banner
   fös 27. janúar 2023 17:23
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Siggi Bond dæmdur í bann út árið - Ætlar sér að áfrýja
Sigurður Gísli Bond Snorrason.
Sigurður Gísli Bond Snorrason.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fyrir utan höfuðstöðvar KSÍ.
Fyrir utan höfuðstöðvar KSÍ.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sigurður Gísli Bond Snorrason hefur verið dæmdur í bann frá allri fótboltaþáttöku á vegum KSÍ fyrir árið 2023.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá KSÍ sem var birt rétt í þessu. KSÍ nafngreinir ekki leikmanninn en það er vitað til þess að umræddur leikmaður er Sigurður Gísli.

Sigurður, sem er ekki lengur á mála hjá Aftureldingu, segir í samtali við Fótbolta.net að hann ætli sér svo sannarlega að áfrýja dómnum. Hann átti að spila með KFK í 4. deild í sumar.

Það var sagt frá því í síðustu viku að Sigurður Gísli hefði veðjað á hundruð knattspyrnuleikja hérlendis síðasta sumar, þar á meðal væru leikir sem hann spilaði sjálfur með Aftureldingu í Lengjudeildinni.

Málið fór á borð aganefndar en það er fyrsta sinnar tegundar hér á landi.

Í reglugerð KSÍ segir skýrt að þeim sem taki þátt í leikjum á vegum sambandsins sé óheimilt að taka þátt í veðmálastarfsemi, með beinum eða óbeinum hætti, í tengslum við eigin leiki og eigin mót.

Því til viðbótar er öllum fótboltamönnum sem samningsbundnir eru íslenskum liðum samkvæmt staðalsamningi KSÍ, eins og Sigurður Gísli var, óheimilt að veðja á leiki í íslenska boltanum.

Sérstaklega var fjallað um að á meðal leikjanna sem Sigurður Gísli veðjaði á hafi verið fimm leikir hjá hans eigin liði, meistaraflokki karla hjá Aftureldingu, og að hann hafi sjálfur tekið þátt í fjórum þeirra. Sigurður veðjaði þó aldrei gegn eigin liði. Það skal tekið fram.

Úr niðurstöðu í máli nr. 14/2022:
„Í greinargerð kæranda er sérstaklega vitnað til þátttöku varnaraðila í fimm veðmálum í tengslum við eigin leiki og eigið mót keppnistímabilið 2022. Hafi varnaraðili í fjögur þessara skipta sjálfur tekið þátt í umræddum leikjum með liði mfl. karla hjá Aftureldingu í Lengjudeild karla. Líkt og fram kemur í greinargerð varnaraðila eru ekki gerðar athugasemdir við getraunaleiki hans á tímabilinu 23. júlí 2022 til 4. september 2022, sem taldir eru upp í fylgiskjali sem kærandi hefur lagt fram í málinu. Að því virtu þykir nefndinni, m.t.t. sönnunarkrafna í agamálum, sbr. dómi Áfrýjunardómstóls í máli nr. 1/2021, að fullnægjandi líkur [comfortable satisfaction] séu á sekt varnaraðila. Varnaraðili hafi með beinni þátttöku sinni í veðmálastarfsemi í tengslum við eigin leiki og eigið mót gerst brotlegur gagnvart grein 6.2. laga KSÍ og grein 4.4. reglugerðar KSÍ um knattspyrnumót.“

„Við ákvörðun viðurlaga horfir nefndin til þess að varnaraðili hafi gerst brotlegur gagnvart ákvæði laga KSÍ sem er ætlað til að standa vörð um heilindi og háttvísi í knattspyrnuhreyfingunni. Þegar aðili, sem fellur undir lögin, gerist uppvís af þátttöku í veðmálastarfsemi í tengslum við eigin leiki og eigið mót gengur það gegn grundvallarreglu um heiðarlegan leik gagnvart öllum þátttakendum leiksins. Varnaðili hafi auk þess gerst brotlegur í a.m.k. fimm skipti á sex vikna tímabili og þar af voru fjórir leikir sem hann tók þátt í sjálfur. Að mati nefndarinnar er því hér um að ræða brot á grundvallarreglu sem eru alvarlegs eðlis, sér í lagi með tilliti til þess að veðmálin lutu að leikjum sem varnaraðili tók sjálfur þátt í."

„Samkvæmt því hefur aga- og úrskurðarnefndar ákveðið með vísan til 40. greinar laga KSÍ að úrskurða varnaraðila í bann frá allri þátttöku í knattspyrnu keppnistímabilið 2023, þ.e. frá 1. febrúar til 15. nóvember."
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner