mið 27. júní 2018 20:03
Ívan Guðjón Baldursson
HM: Brassar lögðu Serba - Svíar mæta Sviss
Mynd: Getty Images
Brasilía og Sviss eru komin upp úr G-riðli eftir leiki dagsins og mæta Mexíkó og Svíþjóð í 16-liða úrslitum.

Brasilía mætti Serbíu og komst verðskuldað yfir þegar Philippe Coutinho gaf fullkomna stungusendingu í hlaup hjá Paulinho sem kláraði vel.

Aleksandar Mitrovic komst nokkrum sinnum nálægt því að skora í síðari hálfleik en skallar hans voru ekki nógu öflugir.

Thiago Silva innsiglaði sigur Brasilíu með skallamarki eftir hornspyrnu þvert gegn gangi leiksins. Markið gerði svo gott sem út um vonir Serba sem virtust gefast upp og voru heppnir að fá ekki fleiri mörk á sig.

Brasilía verðskuldaði sigurinn og mætir Mexíkó í spennandi leik í 16-liða úrslitum.

Svisslendingar lentu í miklum vandræðum gegn Kosta Ríka en voru 1-0 yfir í hálfleik þökk sé marki frá Blerim Dzemaili.

Kendall Watson jafnaði með skalla fyrir Kosta Ríka áður en Josip Drmic virtist innsigla sigurinn undir lokin.

Svo var ekki því Kosta Ríka fékk vítaspyrnu í lokin og steig Bryan Ruiz á punktinn. Ruiz spyrnti vel og skutlaði Yann Sommer sér í rétt horn, en boltinn fór í slána og niður.

Sem betur fer fyrir Ruiz var Sommer í réttu horni, fékk boltann í bakið og þaðan fór hann í netið.

Leiknum lauk 2-2 og eiga Svisslendingar afar áhugaverðan leik við Svía í 16-liða úrslitum.

Serbía 0 - 2 Brasilía
0-1 Paulinho ('36)
0-2 Thiago Silva ('68)

Sviss 2 - 2 Kosta Ríka
1-0 Blerim Dzemaili ('31)
1-1 Kendall Watson ('56)
2-1 Josip Drmic ('88)
2-2 Yann Sommer ('93, sjálfsmark)
Athugasemdir
banner
banner
banner