Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   fim 27. júní 2019 07:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Heimild: BBC 
Hegðun Kamerún í 16-liða úrslitunum til skoðunar
Mynd: Getty Images
Alþjóðaknattspyrnusambandið, FIFA, hefur hafið rannsókn á hegðun Kamerún í 16-liða úrslitum HM í Frakklandi. Kamerún mætti þar Englandi og tapaði 3-0.

Leikurinn var furðulegur og einkenndist hann af allt öðru en fótbolta.

Stuttu fyrir leikhlé komst England í 2-0 þegar Ellen White skoraði. Þá hófst dramatíkin. Flaggið fór á loft og var markið dæmt af vegna rangstöðu, en þegar það var skoðað í VAR þá var það dæmt gott og gilt. White var réttstæð.

Leikmenn Kamerún voru ekki sáttir með þessa VAR-ákvörðun og við tóku fundarhöld á miðjum vellinum. Þær virtust hreinlega neita að spila áfram þótt ákvörðunin hefði verið rétt. Að lokum héldu leikmennirnir áfram.

Í textalýsingu BBC frá leiknum sagði að leikmenn Kamerún hefðu grátið í göngunum í hálfleik og verið með ásakanir um kynþáttafordóma.

Snemma í seinni hálfleiknum var mark dæmt af Kamerún vegna rangstöðu. Eftir að VAR hafði skoðað atvikið þá var það dæmt af. Það var tæpt, en um rangstöðu var að ræða. Þetta var ekki til að kæta leikmenn og þjálfara Kamerún. Ajara Nchout, sem skoraði markið, grét og reyndu liðsfélagar hennar að hugga hana. Þetta var allt saman mjög furðulegt.

Segja má líka að Kamerún hafi haft heppnina með sér að klára leikinn með 11 leikmenn inn á vellinum. Nikita Parris fékk olnbogaskot frá Yvonne Leuko, Augustine Ejangue hrækti á Toni Duggan og Alexandra Takounda átti ljóta tæklingu á Steph Houghton, fyrirliða Englands, í uppbótartíma.

„Þetta var ekki leikur í 16-liða úrslitum HM ef við miðum við hegðun leikmanna. Ég naut leiksins ekki og leikmennirnir nutu hans ekki heldur," sagði Phil Neville, þjálfari Englands, eftir leik.

Málið er til rannsóknar hjá FIFA og spurning hvað gerist.
Athugasemdir
banner