Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   mán 27. júlí 2020 17:16
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Telma Hjaltalín: Veit ekki hvort ég spili fótbolta aftur
Telma ásamt Söndru Maríu Jessen á landsliðsæfingu.
Telma ásamt Söndru Maríu Jessen á landsliðsæfingu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í bikarúrslitaleik með Stjörnunni sumarið 2018.
Í bikarúrslitaleik með Stjörnunni sumarið 2018.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Marki fagnað.
Marki fagnað.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Að vera heill heilsu og geta spilað fótbolta eru forréttindi. Maður veit aldrei hvert lífið tekur mann'
'Að vera heill heilsu og geta spilað fótbolta eru forréttindi. Maður veit aldrei hvert lífið tekur mann'
Mynd: Fótbolti.net - Einar Ásgeirsson
Telma Hjaltalín Þrastardóttir var með yfirtöku á Instagram síðu Heimavallarins þar sem hún opnaði sig varðandi erfið meiðsli sem hún hefur þurft að ganga í gegnum.

Það er hægt að fullyrða það að Telma hefur verið gríðarlega óheppin með meiðsli. Hún hefur þrisvar slitið krossband á sama hné. Hún spilaði 13 leiki í deild og bikar sumarið 2018 og skoraði í þeim tíu mörk. Hún vann sig inn í A-landsliðið en undir lok tímabilsins sleit hún krossband í þriðja sinn.

Telma, sem er 25 ára, spilaði ekkert í fyrra og er hún ekki viss um að hún muni spila fótbolta framar.

„Ég sleit krossband í fyrsta skipti 2016, sleit krossband aftur 2017 og náði engum fótbolta í einhver tvö ár. Síðan spilaði ég einhverja tíu leiki 2018 og náði mjög góðu tímabili þar. Ég var valin í A-landsliðið í september en varð svo fyrir því óláni að slíta í þriðja skiptið á sama hné í lok september. Ég hef ekki spilað fótbolta síðan þá," segir Telma.

„Ég fór ekki í síðustu aðgerðina fyrr en í ágúst í fyrra því mér fannst of mikið að vera að taka þrjár aðgerðir á þremur árum."

„Ég veit ekki hvort ég spili fótbolta aftur, það verður að koma í ljós. Ég verð að setja heilsuna fram yfir löngunina, eins leiðinlegt og það hljómar."

„Krossbandaslit eru að aukast mjög hjá stelpum og það sem mér finnst vanta í umræðuna um þessi meiðsli eru andlega heilsan. Þetta er níu til tólf mánaðar endurhæfing í hvert skipti og líkur aukast á að þú slítir aftur eftir að þú ert búin að slíta í eitt skipti. Mér finnst ekki nægilega mikið fjalla um andlegu heilsuna og hvernig áhrif þetta hefur á mann sjálfan og fólkið í kring um mann."

Telma svaraði mörgum spurningum um meiðslin. Hún gaf ráð við það hvernig eigi að koma til baka eftir krossbandsslit og segir hún til dæmis mikilvægt að gera fyrirbyggjandi æfingar og vera í gervigrasskóm á gervigrasi til þess að minnka líkurnar á því að flækjast í gervigrasinu. Hún segir það þó nánast útilokað að koma í veg fyrir að slíta krossband.

„Það er nánast útilokað að koma alveg í veg fyrir að slíta krossband, því miður. Það er mikið af þáttum sem tengjast meiðslunum sem við ráðum ekki við, eins og til dæmis líkamsbygging og hormónastarfsemi (sem eru áhættuþættir hjá stelpum)."

Öll tóku á andlegu hliðina á mismunandi hátt
Hún var spurð að því hvaða slit hefði tekið mest á andlegu heilsuna, hvort að eitthvað hefði verið verra en annað.

Við því sagði hún: „Þau tóku öll á andlegu hliðina en á mismunandi hátt."

„Fyrsta slitið var mesta sjokkið og mér leið á tímabili eins og ég gæti þetta ekki. Annað slitið var kannski 'þægilegast' því þá vissi ég hvað var framundan og hvað ég þyrfti að gera til að halda hausnum í lagi. Þriðja slitið tók örugglega mest á andlegu hliðina. Það var erfitt að horfa upp á alla vinnuna fara í vaskinn og hugsa út í það að ferillinn væri líklega búinn."

Þá var hún spurð út í það hvaða aðferðir hún hefði notað til að þjálfa hugarfarið og halda í jákvæðnina.

„Það sem hjálpaði mér var að fara til íþróttasálfræðings, setja mér markmið og horfa á gömul myndbönd/myndir af mér," segir Telma. „Ef ég fór að efast þá hugsaði ég um það af hverju ég væri að gera þetta, og stóru verðlaunin að fá að spila aftur þegar þetta væri búið. Það hvatti mig áfram í endurhæfingunni."

„Á tímabili fannst mér erfitt að vera í kringum fótbolta og ég gaf mér tíma til að takast á við mín mál. Þegar mér fór að líða betur þá byrjaði ég að mæta aftur með hausinn 100% rétt skrúfaðan á."

Vantar eitthvað ferli hjá félögum
Hún segir að það vanti ferli hjá félögum þegar leikmenn lenda í alvarlegum meiðslum. „Af minni persónulegu reynslu þá finnst mér vanta eitthvað ferli hjá félögum sem leikmenn eru settir í ef þeir lenda í alvarlegum meiðslum."

„Ég upplifði það að vita ekkert hvað væri framundan eða hvert ég ætti að snúa mér í þessum málum. Félög geta gert betur við að leiðbeina leikmönnum og aðstoða þá við að fá viðeigandi hjálp ef þeir þurfa. Tek það samt fram að þetta er bara mín reynsla og þetta gæti hafa breyst eitthvað."

Að lokum sagði Telma: „Maður á að njóta meðan maður getur. Að vera heill heilsu og geta spilað fótbolta eru forréttindi. Maður veit aldrei hvert lífið tekur mann."

Hægt er að sjá það sem Telma hafði að segja á Instagram síðu Heimavallarins með því að smella hérna.
Athugasemdir
banner
banner