fös 27. september 2019 19:40
Ívan Guðjón Baldursson
Meiðslavandræði hjá Norwich - McGovern gæti spilað
McGovern og Jordan Rhodes fagna Championship titlinum.
McGovern og Jordan Rhodes fagna Championship titlinum.
Mynd: Getty Images
Daniel Farke, stjóri Norwich, er búinn að staðfesta að Tim Krul verður ekki í hóp um helgina vegna meiðsla. Varamarkvörðurinn Ralf Fährmann er tæpur og því gæti hinn 35 ára gamli Michael McGovern verið á milli stanganna.

Meiðslalisti Norwich er afar langur en þessi tíðindi hafa gert stuðningsmenn félagsins sérstaklega áhyggjufulla. Þeir hafa ekki miklar mætur á McGovern, sem er einnig varamarkvörður norður-írska landsliðsins.

McGovern spilaði síðast heilan fótboltaleik í janúar, þegar Norwich tapaði fyrir Portsmouth í enska bikarnum, 0-1.

Auk leiksins gegn Portsmouth spilaði McGovern fjóra leiki í deildabikarnum á síðustu leiktíð. Hann hefur ekki spilað deildarleik í meira en tvö ár en það þótti ekki mikið til hans koma síðast þegar hann fékk tækifæri með Norwich, í Championship deildinni tímabilið 2016-17.

Farke segir að Krul verður líklegast ekkert með liðinu fyrr en eftir landsleikjahlé. Styttra sé þó í Fährmann, sem gæti verið klár í slaginn strax á morgun.

Norwich heimsækir Crystal Palace á morgun klukkan 14:00.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner