Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   fös 27. september 2019 14:08
Elvar Geir Magnússon
Pálmi Rafn: Ætla að vinna fleiri titla með KR
Íslandsmeistarinn Pálmi Rafn Pálmason.
Íslandsmeistarinn Pálmi Rafn Pálmason.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Húsvíkingurinn Pálmi Rafn Pálmason framlengdi í dag samningi sínum við Íslandsmeistara KR.

Fótbolti.net spjallaði við Pálma á elliheimilinu Grund í dag.

„Tilfinningin er mjög góð. Það er gott að vera búinn að klára þetta og geta hætt að pæla í þessum hlutum," segir Pálmi sem er 34 ára.

„Þetta var upp og niður fyrstu árin en hefur verið betra í fyrra og í ár. Að ná titlinum núna og eiga fínt tímabil var helvíti skemmtilegt, ná að sýna hvað maður getur," segir Pálmi um ár sín hjá KR.

Hann var valinn í úrvalslið ársins af Fótbolta.net og var einnig valinn í úrvalslið síðasta tímabils. Er ekki stefnan á að vera í liðinu þriðja árið í röð?

„Það er mikill heiður að vera í úrvalsliðinu. Ég er ekki að skrifa undir framlengingu til að leggja þessu, ég ætla að fara inn í næsta tímabil til að vera eins góður og ég mögulega get. Ef það gengur upp þá á maður möguleika á að vera í liði ársins. En það er ekki það sem maður er að stefna að, ég vona að ég nái fleiri titlum með KR. Eini tilgangurinn með því að koma í KR var að vinna titla."

„Sumarið núna með strákunum hefur verið fáránlega skemmtilegt. Það eru þvílík forréttindi að fá að vera í þessum hóp og vinna með honum," segir Pálmi.

Í lokaumferð Pepsi Max-deildarinnar mun KR leika gegn Breiðabliki á Kópavogsvelli á morgun.

„Við gírum okkur upp. Það eru enn áskoranir til staðar og við getum bæði jafnað stigamet og gert bilið milli okkar og næsta liðs stærra. Það er áskorun sem við erum tilbúnir í. Við ætlum að fara inn í leikinn og reyna að vinna hann. Við gerum allt fyrir þrjú stig eins og alltaf," segir Pálmi Rafn Pálmason.
Athugasemdir
banner
banner
banner