Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
banner
   þri 28. apríl 2020 13:06
Magnús Már Einarsson
Legkökunuddarinn hjálpaði Rúnari Má að losna við meiðsli
Rúnar Már Sigurjónsson.
Rúnar Már Sigurjónsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Rúnar í leik gegn Albaníu í júní í fyrra.  Hann losnaði við meiðsli fyrir þann leik eftir meðhöndlun í Serbíu.
Rúnar í leik gegn Albaníu í júní í fyrra. Hann losnaði við meiðsli fyrir þann leik eftir meðhöndlun í Serbíu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Cristiano Ronaldo vildi að Marijana kæmi til Madrid.
Cristiano Ronaldo vildi að Marijana kæmi til Madrid.
Mynd: Getty Images
Í desember árið 2009 bárust fréttir af því að Rafael Benítez, þáverandi stjóri Liverpool, hafi viljað ráða hina serbnesku Marijana Kovacevic til starfa hjá félaginu. Glen Johnson, Fabio Aurelio, Yossi Benayoun og Albert Riera höfðu allir farið til Serbíu í meðhöndlun vegna meiðsla.

Enskir fjölmiðlar fjölluðu mikið um málið en Marijana var sögð nota legkökunudd til að hjálpa leikmönnum að losna við meiðsli. Hún var sögð nota leg úr hesti til að meðhöndla meiðslin, með góðum árangri.

Marijana er ennþá að störfum í Serbíu og íslenski landsliðsmaðurinn Rúnar Már Sigurjónsson leitaði til hennar í fyrravor áður en hann fór í læknisskoðun hjá nýju félagi sínu, Astana í Kasakstan.

„Ég var búinn að vera mikið meiddur. Aðgerð á ökkla, tognaði svo á kálfa á sama fæti og svo aftur á kálfa á hinum fætinum og einnig lítil tognun framan á læri. Ég var svo orðinn þokkalega heill en fann ennþá mikið til í kálfanum og einnig í lærinu. Framundan var læknisskoðun hjá Astana og svo landsleikir heima í júní," sagði Rúnar Már í viðtali við Fótbolta.net.

„Ég fékk vikufrí og ákvað þá að fara til Serbíu og prófa þetta. Liðsfélagi minn hafði meiðst aðeins áður og átti að vera frá í amk 6 vikur en hann fór til hennar og spilaði 90 mínútur tveimur vikum seinna. Ég hugsaði að ég kæmi alla vega ekki verri út úr þessu en vonandi betri. Á fjórum dögum í 90 mínútur á dag hvarf allur sársauki og ég flaug í gegnum læknisskoðunina hjá Astana og spilaði svo með landsliðinu án þess að finna fyrir neinu."

Segir að þetta sé gel
Rúnar var gífurlega ánægður með meðhöndlunina en Marijana vill þó ekki meina að hún notist við legköku.

„Sagan segir að hún nuddi legköku úr konum á svæðið og önnur saga segir að hún noti legköku úr hestum. Mjög misjafnt hvað menn hafa sagt. Ég spurði hana út í þetta og hún hló bara, sagði að þetta væri bara eitthvað gel. En í fullri hreinskilni veit ég ekkert hvað þetta er sem hún notar og held að mjög fáir fái að vita leyndarmálið á bakvið þetta," sagði Rúnar.

„Hún nuddar allavega einhverju akkurat á punktinn þar sem meiðslin eru með einhverju tæki sem gefur frá sér straum. Byrjar rólega en verður svo meira og meira eftir því sem tíminn líður. Engar sprautur eða töflur og ekkert fer inn í líkamann sjálfan þannig þetta er ekkert ólöglegt. Ég fór í myndatöku fyrir meðferðina til að sjá nákvæmlega hvar meiðslin væru og svo aftur í myndatöku eftir meðferðina og þá sást ekkert."

„Þetta virkaði mjög vel fyrir mig. Hef ekkert fundið fyrir þessum meiðslum eftir þetta. En ég geri mér grein fyrir því að stundum virkar þetta og stundum ekki. Það eru fjölmörg dæmi þar sem menn hafa meiðst aftur strax í fyrsta leik eftir þetta. En einnig mörg dæmi eins og í tilviki liðsfélaga míns þar sem hann var mættur út á völl fjórum vikum á undan áætlun og kom aldrei neitt bakslag."

Ronaldo vildi fá meðhöndlun í viku
Auk leikmanna Liverpool á sínum tíma þá meðhöndlaði Marijana leikmenn eins og Frank Lampard og Robin van Persie. Fyrir úrslitaleik Meistaradeildarinnar 2014 náði Diego Costa að verða leikfær á ótrulegan hátt eftir meðhöndlun í Serbíu. Gleðin var hins vegar stutt því Costa fór aftur af velli í fyrri hálfleik.

„Ég spurði hana hvað væri stærsta nafnið sem hafi komið og hún sagði að enginn væri stærri en annar og allir jafnir. Talaði aðeins um þegar Benitez vildi fá hana til að vinna fyrir Liverpool en hún vildi bara vera sinn eigin stjóri. Ronaldo vildi fá hana til Madrid í viku en hún neitaði. Eini samningurinn sem hún hefur gert er að hún fór á eitt stórmót með Serbum og fer á öll stórmót með Ghana," sagði Rúnar Már.
Athugasemdir
banner
banner