fim 28. júní 2018 22:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Hverjir gætu tekið við af Kára og Ragga?
Icelandair
Ragnar og Kári gætu verið að kveðja landsliðið.
Ragnar og Kári gætu verið að kveðja landsliðið.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sverrir Ingi fær eflaust stærra hlutverk núna.
Sverrir Ingi fær eflaust stærra hlutverk núna.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hörður Björgvin Magnússon.
Hörður Björgvin Magnússon.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hjörtur Hermannsson.
Hjörtur Hermannsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hólmar Örn Eyjólfsson.
Hólmar Örn Eyjólfsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jón Guðni Fjóluson.
Jón Guðni Fjóluson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það er enginn vafi á því að Kári Árnason og Ragnar Sigurðsson hafa saman myndað sterkasta miðvarðar sem íslenska karlalandsliðið í fótbolta átt hefur.

Í fyrsta alvöru leik Lars Lagerback og Heimis Hallgrímssonar árið 2013 var Kári mættur við hlið Ragnars. Leikurinn var við Noreg á Laugardalsvelli. Eftirminnilegur leikur sem vann 2-0 og skoraði Kári fyrra markið í þeim leik eftir langt innkast.

Í flestum leikjum eftir þennan eftirminnilegum Noregsleik, í flestum keppnisleikjum þ.e.a.s. spiluðu Kári og Ragnar saman í hjarta varnarinnar. Þeir hafa varla stigið feilspor á síðastliðnum fimm árum. Með þá saman í hjarta varnarinnar hefur íslenska þjóðin aðeins getað andað léttar.

En núna eru tímamót, eða það lítur þannig út.

Sjá einnig:
Gáttaðir um borð í flugvél - Maður vill ekki trúa þessu

Síðustu tveir dagar
„Þvílík ferð sem þetta hefur verið. Við vildum meira út úr þessu Heimsmeistaramóti en heppnin var ekki með okkur. Það hefur verið heiður að spila fyrir þjóð mína með vinum mínum og að hafa náð þessum árangri. Nú er kominn tími fyrir yngri strákanna að taka við vörninni. Miklar þakkir til allra þeirra sem tóku þátt í þessu ótrúlega ferðalagi," skrifar Ragnar Sigurðsson á Instagram í gær, miðvikudaginn 27. júní, 2018.

Hann gefur þarna til kynna að hann sé hættur í landsliðinu og nú sé komið að yngri leikmönnum að stíga upp.

Daginn áður, eftir tap gegn Króatíu á HM - tap sem felldi Ísland á mótinu, greindi landsliðsfyrirliðinn, Aron Einar Gunnarsson, frá því að Kári væri hættur í landsliðinu.

Kári kannaðist samt ekki við það eftir leikinn. „Er hann búinn að greina frá því? Já, það er gott að hann tekur ákvörðun um það," sagði Kári og hló.

„Ég get ekki sagt nei við landsliðinu. Mín stoltustu augnablik á lífsleiðinni hafa komið með landsliðinu. Ég er mjög stoltur af því að hafa verið partur af þessu liði og stoltur af þessum strákum."

„Ég ætla ekki að koma með stórar yfirlýsingar um að ég sé hættur með landsliðinu en það lítur svolítið þannig út," sagði Kári sem útilokaði þó ekkert.

„Okkar mesta legend (Eiður Smári Guðjohnsen) brenndi sig svolítið á því að segja að hann væri hættur og síðan kom hann aftur. Það að fara á HM með liðinu var draumur fyrir okkur alla. Stoltustu augnablik mín í fótboltanum og lífinu hafa komið með þessu liði. Ég er gríðarlega stoltur af því að hafa verið partur af þessu. Ég er stoltur af því að hafa átt þátt í því að við komumst á EM og HM. Ég er mjög stoltur af liðinu í dag líka. Við vorum flottir í dag og við verðskulduðum meira úr þessum leik."

Kári er að fara heim að spila í Pepsi-deildinni með Víkingi R. og því frekar ólíklegt að hann spili fleiri landsleiki, þó ekki útilokað.

Hverjir verða okkar næstu Kári og Raggi?
Ef svo vill til að Kári og Raggi spili ekki fleiri landsleiki saman, hverjir munu þá taka við keflinu? Lítum aðeins yfir stöðuna.

Sverrir Ingi Ingason, 24 ára - Rostov í Rússlandi. Hefur verið þriðji kostur á eftir Ragga og Kára. Leikmaður sem kemur klárlega til í að fá stærra hlutverk núna og það er eiginlega bara spurning hver kemur við hlið hans. Sverrir er efni í framtíðarlandsliðsfyrirliða.

Hörður Björgvin Magnússon, 25 ára - CSKA Moskva í Rússlandi. Hörður er búinn að vera að spila í vinstri bakverðinum hjá Íslandi og gerði það alla leikina á HM í Rússlandi. Hörður er hins vegar að upplagi miðvörður. Hann gæti stokkið inn í miðvarðarstöðuna.

Hjörtur Hermannsson, 23 ára - Bröndby í Danmörku. Komst ekki í HM hópinn, eitthvað sem kom fólki á óvart. Var að spila mikið með Bröndby, sem rétt missti af danska meistaratitlinum á síðasta tímabili. Á aðeins sjö landsleiki en þeir eiga eftir að verða fleiri.

Hólmar Örn Eyjólfsson, 27 ára - Levski Sofia í Búlgaríu. Er búinn að vera að spila frábærlega í Búlgaríu en hefur aldrei náð að fóta sig almennilega í landsliðinu. Gerist það núna?

Jón Guðni Fjóluson, 29 ára - Norrköping í Svíþjóð. Flottur leikmaður sem er búinn að vera standa sig vel í Svíþjóð með einu sterkasta liðinu þar. Hefur verið að fá tækifæri í vináttulandsleikjum og þess háttar og staðið sig ágætlega.

Orri Sigurður Ómarsson, 23 ára - HamKam í Noregi. Var geggjaður þegar Valur varð Íslandsmeistari í fyrra, einn af bestu mönnum liðsins. Fékk í kjölfarið samning hjá norska úrvalsdeildarfélaginu Sarpsborg en var lánaður í 1. deildina til HamKam. Leikmaður með frábæran karkter og ef hann stígur upp í Noregi þá er hann til alls líklegur.

Axel Óskar Andrésson, 20 ára - Reading á Englandi. Óvænt nafn á þessum lista en þessi leikmaður á framtíðina fyrir sér. Stór og stæðilegur miðvörður sem var nokkrum sinnum í hóp hjá aðallið Reading á síðasta tímabili. Er í U21 landsliði Íslands.

Sverrir Ingi mun pottþétt fá stærra hlutverk í næstu verkefnum. Ef Ragnar og Kári verða ekki meira með, þá verður mjög fróðlegt að sjá hver verður með Sverri í vörninni. Hjörtur Hermannsson verður að teljast nokkuð líklegur ef Hörður Björgvin verður ekki færður inn í hjartað, jafnvel þó svo að hann hafi ekki farið með á HM. Hólmar Örn Eyjólfsson er líka sterkur kandídat og Jón Guðni gæti einnig komið til greina. Orri og Axel eru kannski ekki eins líklegir að koma strax inn en þeir eru framtíðarleikmenn.

Hverjir sem það verða sem munu spila í miðvarðarstöðunni fyrir íslenska landsliðið á næstu árum þá er eitt ljóst. Það verður mjög, mjög erfitt að leika eftir það sem Kári og Ragnar hafa gert fyrir landsliðið og íslensku þjóðina í heild sinni.

Næsta landsliðsverkefni er gegn Sviss í Þjóðadeildinni snemma í september. Þá munu línur skýrast frekar. Þangað til á margt eftir að koma ljós, til dæmis hver mun stýra landsliðinu. Heimir Hallgrímsson er að hugsa sig um hvort hann haldi áfram og mun taka 1-2 vikur í umhugsunarfrest. Flestir ef ekki allir vonast til þess að Heimir muni halda áfram enda hefur hann gert magnaða hluti.

Heimir var ráðinn aðstoðarþjálfari íslenska landsliðsins árið 2011. Árið 2013 var hann gerður að aðaþjálfara ásamt Lars Lagerback og eftir EM 2016 tók hann einn við liðinu.

Guðni Bergsson formaður KSÍ, sagði fyrr í mánuðinum að hann sé tilbúinn með plan B ef Heimir ákveður að hætta, sem verður vonandi ekki.

Sjá einnig:
Guðni bjartsýnn á að Heimir framlengi - Plan B Klárt (10. júní)
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner