Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   þri 28. júlí 2020 20:02
Ívan Guðjón Baldursson
Pepsi Max-deild kvenna: Mögnuð endurkoma ÍBV gegn Selfossi - Þór/KA sigraði KR
Olga lék lykilhlutverk í endurkomu Eyjakvenna.
Olga lék lykilhlutverk í endurkomu Eyjakvenna.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arna Sif gerði sigurmark Þórs/KA.
Arna Sif gerði sigurmark Þórs/KA.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
ÍBV 3 - 2 Selfoss
0-1 Tiffany Janea McCarty ('3)
0-2 Dagný Brynjarsdóttir ('23, víti)
1-2 Olga Sevcova ('50)
2-2 Kristjana R. Kristjánsdóttir Sigurz ('85)
3-2 Miyah Watford ('90)

Tveimur fyrstu leikjum kvöldsins í Pepsi Max-deild kvenna var að ljúka. Þór/KA og ÍBV lentu undir á heimavelli en náðu að koma til baka og sigra.

Eyjastúlkur gerðu sérstaklega vel þar sem þær lentu 0-2 undir gegn Selfossi. Tiffany McCarty gerði fyrsta markið á fyrstu mínútum leiksins með skalla eftir háa sendingu frá Clöru Sigurðardóttur.

Tuttugu mínútum síðar fékk Selfoss vítaspyrnu og skoraði landsliðskonan Dagný Brynjarsdóttir úr henni. Staðan var 0-2 í hálfleik og útlitið gott fyrir gestina frá Selfossi.

ÍBV tók við sér í síðari hálfleik og minnkaði Olga Sevcova muninn með marki úr aukaspyrnu eftir aðeins fimm mínútur. Eyjastúlkur spiluðu vel eftir leikhlé en náðu ekki að jafna fyrr en á 85. mínútu þegar Olga átti frábæra sendingu á Kristjönu Kristjánsdóttur sem skoraði.

Leikurinn stefndi í jafntefli en Miyah Watford var á öðru máli og gerði sigurmark ÍBV á lokamínútunum. Hún skoraði eftir sendingu frá Olgu sem var allt í öllu í liði heimamanna í dag.

Selfoss er áfram með tíu stig í fjórða sæti. ÍBV er með níu stig.

Þór/KA 2 - 1 KR
0-1 Lára Kristín Pedersen ('53)
1-1 Margrét Árnadóttir ('56)
2-1 Arna Sif Ásgrímsdóttir ('77, víti)

Staðan var markalaus í hálfleik á Akureyri en gestirnir úr Vesturbænum byrjuðu seinni hálfleikinn af krafti og komust yfir þökk sé marki Láru Kristínar Pedersen. Hún skoraði eftir frábæran undirbúning frá Thelmu Lóu Hermannsdóttur sem hafði verið afar lífleg undanfarnar mínútur.

Margrét Árnadóttir kom inn af bekknum skömmu síðar og jafnaði strax eftir góða sendingu frá Jakobínu Hjörvarsdóttur.

Bæði lið fengu færi til að bæta við marki en heppnin féll með Akureyringum sem fengu vítaspyrnu á 75. mínútu þegar boltinn fór í höndina á Ingunni Haraldsdóttur innan vítateigs.

Arna Sif Ásgrímsdóttir skoraði af vítapunktinum og tókst gestunum ekki að jafna þrátt fyrir mikla pressu á lokamínútunum.

Þór/KA er komið upp í tíu stig eftir sigurinn á meðan KR situr eftir með sjö stig.

Það getur tekið tíma fyrir stöðutöfluna að uppfærast.
Stöðutaflan
  L U J T ms: mf: mun Stig
0 0 0 0 0 0 0 0 0
Athugasemdir
banner
banner