þri 28. júlí 2020 21:07
Ívan Guðjón Baldursson
Pepsi Max-deild kvenna: Ótrúlegt tíu marka jafntefli í Garðabæ
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Stjarnan 5 - 5 Þróttur R.
0-1 Sóley María Steinarsdóttir ('13)
0-2 Laura Hughes ('16)
1-2 Jana Sól Valdimarsdóttir ('28)
1-3 Ólöf Sigríður Kristinsdóttir ('40)
2-3 Arna Dís Arnþórsdóttir ('43)
2-4 Ólöf Sigríður Kristinsdóttir ('45)
3-4 Jasmín Erla Ingadóttir ('58)
3-5 Ólöf Sigríður Kristinsdóttir ('75)
4-5 Gyða Kristín Gunnarsdóttir ('83)
5-5 Gyða Kristín Gunnarsdóttir ('88)

Það gjörsamlega rigndi niður mörkum þegar Stjarnan tók á móti Þrótti R. í síðasta leik kvöldsins í Pepsi Max-deild kvenna.

Leikurinn var hreint út sagt ótrúlegur þar sem gestirnir úr Laugardalnum komust í tveggja marka forystu snemma leiks. Sóley María Steinarsdóttir og Laura Hughes skoruðu mörkin.

Garðbæingar fengu nokkur góð færi áður en Jana Sól Valdimarsdóttir minnkaði muninn á 28. mínútu. Leikurinn var gríðarlega opinn og fengu bæði lið góð færi, sem skiluðu sér í þremur mörkum til viðbótar fyrir leikhlé.

Ólöf Sigríður Kristinsdóttir skoraði eftir hornspyrnu á 40. mínútu og svo minnkaði Arna Dís Arnþórsdóttir muninn skömmu síðar beint úr horni. Það leið ekki á löngu þar til Ólöf Sigríður gerði sitt annað mark og staðan 2-4 í hálfleik.

Síðari hálfleikurinn fór vel af stað og minnkaði Jasmín Erla Ingadóttir muninn á 58. mínútu. Stjarnan komst nálægt því að jafna tíu mínútum síðar en Þrótti tókst að bjarga í horn. Skömmu eftir björgunina fullkomnaði Ólöf Sigríður þrennuna sína og staðan orðin 3-5 í þessum æðislega leik.

Næst var komið að Gyðu Kristínu Gunnarsdóttur að skora eftir frábæran undirbúning frá Jasmín Erlu og Stjörnukonur aftur aðeins einu marki frá því að jafna.

Garðbæingar settu mikla pressu á Þrótt og hún skilaði sér með jöfnunarmarki á 88. mínútu. Þar var Gyða Kristín aftur á ferð, en hún kom inn af bekknum aðeins tíu mínútum fyrr.

Stjarnan reyndi að fullkomna þessa ótrúlegu endurkomu og sækja sigurinn en það tókst ekki og lokatölur 5-5 eftir ótrúlegan fótboltaleik.

Liðin eru jöfn í neðri hluta deildarinnar, með sjö stig eftir átta umferðir.

Það getur tekið tíma fyrir stöðutöfluna að uppfærast.
Stöðutaflan
  L U J T ms: mf: mun Stig
0 0 0 0 0 0 0 0 0
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner