banner
   þri 28. júlí 2020 23:30
Ívan Guðjón Baldursson
Rummenigge: Ósanngjarnt að hætta við Gullknöttinn
Mynd: Getty Images
Franski knattspyrnumiðillinn France Football staðfesti í síðustu viku að Gullknötturinn (Ballon d'Or) verði ekki veittur á þessu ári vegna Covid-19.

Margir eru ósáttir með þessa ákvörðun en FIFA hætti einnig við sína eigin verðlaunaafhendingu sem heitir 'The Best'.

Karl-Heinz Rummenigge, forseti FC Bayern, telur þessa ákvörðun France Football vera ósanngjarna fyrir stjörnuleikmann Bæjara, pólska sóknarmanninn Robert Lewandowski.

Lewandowski hefur raðað inn mörkunum á leiktíðinni og átti lykilþátt í enn einum deildarsigri FC Bayern í Þýskalandi.

Aðeins var hætt við keppni í einni af fimm stærstu deildum Evrópu vegna Covid-19, frönsku deildinni.

„Robert Lewandowski hefur átt stórkostlegt tímabil, þetta er mögulega besta tímabil ferilsins hans. Það er miður að France Football hafi hætt við Ballon d'Or, við erum ekki mjög ánægðir með þá ákvörðun," sagði Rummenigge á fréttamannafundi í gær.

„Þetta er ósanngjörn ákvörðun, ekki bara fyrir FC Bayern heldur einnig fyrir Robert Lewandowski sem var líklegur til sigurs."

Lewandowski hefur aldrei verið meðal þriggja atkvæðamestu leikmanna heims en hann hafnaði í fjórða sæti 2015.
Athugasemdir
banner
banner