Zidane hefur augastað á Man Utd - Guimaraes áfram hjá Newcastle - Bayern hefur ekki rætt við Rangnick
   lau 28. september 2019 12:10
Ívan Guðjón Baldursson
Lampard ósáttur með háttvísisverðlaun Leeds
Mynd: Getty Images
Leeds hlaut á dögunum háttvísisverðlaun FIFA fyrir að leyfa Aston Villa að jafna eftir að hafa skorað ósanngjarnt mark. Leikmaður Villa lá meiddur á vellinum og bjuggust samherjar hans við að leikurinn yrði stöðvaður en í staðinn keyrðu leikmenn Leeds upp og skoruðu.

Marcelo Bielsa, þjálfari Leeds, krafðist þess að sínir menn leyfðu Villa að jafna í leiknum, sem var mikilvægur slagur í toppbaráttunni.

Frank Lampard, sem stýrði Derby County í Championship deildinni á síðustu leiktíð, er ekki ánægður með að Leeds hafi hlotið þessi verðlaun vegna fyrri skandals sem átti sér stað. Þá kom í ljós að Bielsa væri að senda njósnara á lokaðar æfingar hjá öllum andstæðingum sínum, en þetta kom í ljós eftir að njósnari hans var gripinn á æfingasvæði Derby.

„Þetta lét mig brosa. Vitum við eitthvað hverjir eru að kjósa í þetta? Það sem gerðist í njósnamálinu var rangt. Þeir voru sektaðir og reglunum breytt til að þetta myndi ekki gerast aftur. Mér fannst þessi hegðun óviðeigandi," sagði Lampard.

„Þess vegna finnst mér kaldhæðnislegt að félagið fái háttvísisverðlaun á sama ári. Mér og fleirum finnst þetta furðuleg ákvörðun."
Athugasemdir
banner
banner