Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   mán 28. september 2020 18:07
Elvar Geir Magnússon
Heimild: Stöð 2 
Fylkir íhugar að kæra KR vegna ummæla Rúnars
Mynd: Fótbolti.net - Einar Ásgeirsson
Rúnar Kristinsson.
Rúnar Kristinsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Fylkir hefur sent kæru og þeir þurfa að fá að svara fyrir það. Mér finnst ekki í lagi að tala svona um mótherja og þetta var honum ekki sæmandi," segir Ólafur Ingi Skúlason, spilandi þjálfari Fylkis, í viðtali við Stöð 2.

Fylkismenn eru allt annað en sáttir við ummæli Rúnars Kristinssonar, þjálfara KR, eftir að Árbæjarliðið vann 2-1 útisigur á Meistaravöllum í gær.

Uppfært: Fótbolti.net fékk tilkynningu frá Fylki um að Ólafur hefði ekki sagt rétt um að búið væri að leggja fram kæru en að félagið væri að skoða sína stöðu.

„Ég á ekki erfitt með að taka svona ummælum. En það er svolítið mikið þegar maður þarf að útskýra fyrir börnunum sínum að pabbi sé ekki svindlari. Ég á þrettán ára stelpu sem spilar fótbolta og auðvitað gæti þetta haft áhrif á hana," segir Ólafur í umræddu viðtali.

„Mér er svo sem alveg sama hvað Rúnari finnst um mig. Það hafa allir sínar skoðanir á fólki. En ég held að maður þurfi aðeins að passa sig þegar maður talar á opinberum vettvangi. Mér finnst ekki í lagi að láta svona orð falla. Og þetta er honum svolítið til skammar."

Sigurmark leiksins í gær hefur verið mikið í umræðunni en Beitir Ólafsson fékk dæmda á sig vítaspyrnu og rautt spjald fyrir að slæma hendi í Ólaf þegar boltinn var víðs fjarri. Úr vítinu kom sigurmarkið.

Í viðtölum eftir leikinn sagði Rúnar að Ólafur hefði hagað sér eins og fífl og talaði um að þegar lið vinna á þennan hátt væri það svindl og svínarí.

Rúnar sakaði Ólaf um leikaraskap en Ólafur segir sjálfur að um 100% réttan dóm hafi verið að ræða.

„Myndirnar tala sínu máli. Hann veit af mér og er með hendurnar í ónáttúrulegri stöðu. Hann gerir sig bara sekan um að gefa mér högg og fær réttilega dæmt á sig víti og rautt spjald," sagði Ólafur við Stöð 2 en viðtalið má sjá hér að neðan.

Sjá einnig:
Galið að Beitir bjóði upp á þetta


Athugasemdir
banner
banner
banner