Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   lau 28. nóvember 2020 19:47
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Samúel Kári skoraði í Íslendingaslag - Mikael á toppnum
Samúel Kári Friðjónsson.
Samúel Kári Friðjónsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mikael í leik gegn Liverpool í Meistaradeildinni.
Mikael í leik gegn Liverpool í Meistaradeildinni.
Mynd: Getty Images
Samúel Kári Friðjónsson átti mjög góðan leik fyrir Viking er liðið lagði Start að velli í Íslendingaslag í norsku úrvalsdeildinni.

Samúel Kári kom Viking í 2-0 eftir rúmlega klukkutíma leik og átti hann stóran þátt í þriðja marki liðsins nokkrum mínútum síðar. Leikurinn endaði með 4-1 sigri Viking. Axel Óskar Andrésson spilaði allan leikinn fyrir Viking og átti mjög góðan leik.

Viking er í sjöunda sæti deildarinnar með 39 stig úr 26 leikjum. Start er í 13. sæti, einu stigi frá fallsvæðinu. Jóhannes Þór Harðarson er þjálfari Start og Guðmundur Andri Tryggvason er á mála hjá félaginu. Hann var ekki í hóp í dag.

Jón Guðni Fjóluson spilaði þá klukkutíma þegar Brann vann 3-1 sigur á Álasundi í öðrum Íslendingaslag. Davíð Kristján Ólafsson spilaði allan leikinn fyrir Álasund sem er á botni deildarinnar. Liðið er svo gott sem fallið. Brann er í tíunda sæti.

Í norsku 1. deildinni var Adam Örn Arnarson ekki í hóp hjá Tromsö sem vann 1-0 sigur á Ranheim. Tromsö er búið að vinna sér þáttökurétt í norsku úrvalsdeildinni fyrir næsta tímabil.

Mikael byrjaði í jafntefli
Mikael Neville Anderson var í byrjunarliði Midtjylland er liðið gerði markalaust jafntefli við Álaborg í dönsku úrvalsdeildinni.

Mikael spilaði stórt hlutverk þegar Midtjylland varð meistari á síðustu leiktíð. Hann hefur ekki spilað eins stórt hlutverk á þessu tímabili. Hann var að byrja sinn þriðja deildarleik á tímabilinu og spilaði hann allan leikinn fyrir Midtjylland, sem er á toppi dönsku deildarinnar.

Böðvar spilaði tapi í Póllandi
Vinstri bakvörðurinn Böðvar Böðvarsson lék allan leikinn fyrir Jagiellonia Bialystok þegar liðið tapaði fyrir Stal Mielec á útivelli, 3-1, í pólsku úrvalsdeildinni.

Samkvæmt uppstillingu Soccerway lék Böðvar vinstra megin í hjarta varnarinnar. Hann er að upplagi vinstri bakvörður.

Jagiellonia er í áttunda sæti pólsku úrvalsdeildarinnar með 14 stig eftir 11 leiki.

Ögmundur og Birkir á bekknum
Landsliðsmarkvörðurinn Ögmundur Kristinsson sat á bekknum hjá Olympiakos er liðið vann 1-2 útisigur á Aris í toppslag í grísku úrvalsdeildinni. Olympiakos er á toppi deildarinnar með 22 stig.

Birkir Valur Jónsson var þá ónotaður varamaður hjá Spartak Trnava í úrvalsdeildinni í Slóvakíu. Liðið tapaði 2-0 fyrir DAC, sem er á toppi deildarinnar. Trnava situr í sjötta sæti, en Birkir hefur komið við sögu í þremur leikjum á tímabilinu þegar 15 leikir eru búnir.
Athugasemdir
banner
banner
banner