fös 29. janúar 2016 12:15
Magnús Már Einarsson
Stopp í viðræðum Hammarby og Breiðabliks um Höskuld
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Breiðablik hefur ekkert heyrt frá sænska félaginu Hammarby undanfarnar vikur varðandi U21 árs landsliðsmanninn Höskuld Gunnlaugsson.

Hammarby hefur átt í viðræðum um kaup á Höskuldi en ekkert er að gerast í málinu í augnablikinu.

„Ég hef ekki heyrt í þeim í tvær til þrjár vikur. Við búumst við að hann verði áfram hér," sagði Eysteinn Lárusson framkvæmdastjóri knattspyrnudeildar Breiðabliks í samtali við FotbollDirekt.se.

Reglur í Svíþjóð segja að níu erlendir leikmenn megi vera í leikmannahópnum í hverjum leik. Hammarby er með tíu erlenda leikmenn innan sinna raða og þarf að losa sig við erlenda leikmenn ef Höskuldur á að koma til félagsins.

Höskuldur sló í gegn með Blikum á síðasta tímabili en hann var einn af betri leikmönnum liðsins.

Landsliðsmennirnir Ögmundur Kristinsson og Birkir Már Sævarsson eru báðir á mála hjá Hammarby. Liðið sigldi lygnan sjó í sænsku úrvalsdeildinni á nýliðnu tímabili og endaði í ellefta sæti af sextán liðum.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner