mið 29. júlí 2020 19:40
Ívan Guðjón Baldursson
Igli Tare staðfestir áhuga á David Silva
Mynd: Getty Images
Spænski miðjumaðurinn David Silva er samningslaus eftir frábæran áratug hjá Manchester City. Hann hefur verið orðaður við Lazio að undanförnu og var Igli Tare, yfirmaður íþróttamála, spurður út í orðróminn.

„Ég veit ekki hvaðan þessar sögur koma," sagði Tare glottandi, enda sást til þeirra félaganna snæða saman kvöldverð á Ítalíu á dögunum.

„Hann er frábær leikmaður og ég hef heyrt frá sameiginlegum vinum að hann vill reyna fyrir sér á nýjum slóðum eftir 10 ár í enska boltanum. En það er mikill munur á því að ræða eitthvað og láta það gerast."

Lazio var lengi vel í titilbaráttunni í Serie A en missti dampinn eftir Covid-hlé. Liðið er þó búið að tryggja sér sæti í riðlakeppni Meistaradeildarinnar á næsta ári og eru hágæðaleikmenn á borð við Ciro Immobile, Luis Alberto og Sergej Milinkovic-Savic í leikmannahópnum.

Silva er 34 ára gamall og gæti fullkomnað gífurlega öfluga miðju Lazio með að skipta yfir.

„Lazio er komið aftur í Meistaradeildina eftir þrettán ára fjarveru. Núna erum við að leita að leiðum til að fara með félagið enn hærra. Við erum að byggja liðið í kringum Immobile."
Athugasemdir
banner
banner